Starfsréttindi norrænna ríkisborgara

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 14:25:00 (5219)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að hér er um að ræða samning sem gerður var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og kemur hér aðeins til staðfestingar. Mér heyrðist hv. þm. taka þannig til orða að við værum að afsala okkur réttindum, það kann að vera að mér hafi misheyrst. Mér sýnist að við séum miklu frekar að afla íslenskum ríkisborgurum margháttaðra réttinda sem mörgum þykja einmitt eftirsóknarverð, þ.e. að þessi viðurkenning fáist.
    Varðandi þær spurningar sem hann bar fram varðandi gildi norrænna samninga gagnvart EES-samningi þá hygg ég að sú meginregla gildi að þar sem hinir norrænu samningar veita betri rétt en gert er ráð fyrir á Evrópsku efnahagssvæði haldist sá réttur. En þar sem réttindi eru minni muni það leiða til breytinga. Hins vegar skal ég viðurkenna að frá þeim tíma sem ég vissi að þingmaður ætlaði að bera fram þessa fyrirspurn sína hefur mér ekki gefist ráðrúm til þess að kanna þetta mál þannig að ég gæti veitt honum ítarlegri svör. Hinir norrænu samningar eru vistaðir í hinum ýmsu ráðuneytum og ég hygg að þar sé athugun þessara mála í gangi. Hversu langt það verk er komið treysti ég mér ekki til að fullyrða um nema að undangenginni vandaðri athugun en þeirri sem tíu mínútna frestur gefur tilefni til.