Höfundalög

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 14:50:00 (5224)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. þm. undirtektir hans við málið. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að undirbúningur málsins er mjög vandaður.
Í nefndinni hafa starfað þeir menn sem mest hafa kynnt sér höfundaréttarmálefni á undangengnum árum, ég vil segja áratugum og ég hef sannfærst um að mjög vel hafi verið vandað til verksins. Síðasta breyting á þessum lögum var gerið árið 1984 og nefndin var skipuð 1987. Hún hefur síðan verið að störfum og mun starfa áfram eins og ég gat um í framsöguræðu minni.
    Tölvusviðið er vafalaust mjög vandmeðfarið og áreiðanlega rétt sem hv. þm. sagði að það kann að vera erfiðleikum háð að koma í veg fyrir sjóræningjastarfsemi, eins og hann orðaði það. Það er kannski rétta orðið. Eins og ég sagði hafa samtök íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja vakið athygli ráðuneytisins á því að ákvæði frv. kunni að vera nokkuð rúm. Mér þykir þess vegna rétt að það verði athugað sérstaklega í hv. þingnefnd. Þær athugasemdir komu ekki, kannski af eðlilegum ástæðum, fyrr en alveg nýlega. Þeim hefur sjálfsagt ekki verið nægilega kunnugt um efni frv. áður.
    Varðandi hugmyndir hv. þm. um að upplýsa almenning um hvað er á ferðinni, held ég að það sé mikið nauðsynjamál og mun taka það til sérstakrar athugunar með hvaða hætti hægt væri að kynna þau nýmæli sem frv. felur í sér, verði það að lögum.