Fullorðinsfræðsla

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 15:29:00 (5228)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram en þykir slæmt að það skuli ekki hafa komið fram fyrr á þessu þingi þannig að það væri nokkuð ljóst að við gætum afgreitt það. Ég vona að það hve seint það kemur fram verði ekki til þess að það hljóti ekki afgreiðslu. Eins og fram hefur komið er þetta ekki í fyrsta skipti sem samið er frv. til laga um fullorðinsfræðslu og eru orðin nokkuð mörg ár síðan slíkt frv. var fyrst samið.
    Ég hefði talið eðlilegra og betra fyrirkomulag að það væru ein lög sem fjölluðu um alla fullorðinsfræðslu, bæði þá sem hér er kölluð almenn fullorðinsfræðsla og starfsmenntun í atvinnulífinu, eins og það er nú kallað. En það hefur verið kosið að flytja um málið tvö frumvörp og þykir mér það miður. Ekki er endanlega búið að afgreiða lög um starfsmenntun í atvinnulífinu en mér skilst að félmn. sé búin að afgreiða málið svo að það er of seint að óska eftir því að þessi tvö frumvörp verði rædd saman. Það var talað um það, þegar mælt var fyrir frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu, að von væri á frv. til laga um fullorðinsfræðslu. En greinilegt er að það hefur tekið lengri tíma en von var á þá og því miður er búið að afgreiða hitt frv. frá nefndinni en hún hefði átt að fjalla um þau saman.
    Þrátt fyrir þessa annmarka, sem ég tel þó nokkra, er auðvitað betra að fá löggjöf um fullorðinsfræðslu, þ.e. bæði starfsmenntun í atvinnulífinu sem og þessa svokölluðu almennu fullorðinsfræðslu, en ekki neitt. Ég tel að það sé betra en festa okkur í deilum um hvar eigi að vista þessa fræðslu.
    Ég vil geta þess, virðulegi forseti, að á 108. löggjafarþingi var flutt þáltill. Fyrsti flm. var Guðrún J. Halldórsdóttir, sem þá var á þingi fyrir Kvennalistann sem varaþingmaður. Það var till. til þál. um fullorðinsfræðslulög. Meðflutningsmenn að þeirri tillögu voru Guðrún Agnarsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, núv. hæstv. félmrh., og Kristín Halldórsdóttir. Sem fskj. með þeirri tillögu er frv. sem tekur á fullorðinsfræðslu í heild, bæði starfsmenntun í atvinnulífinu og fullorðinsfræðslu. Mér fellur miklu betur það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í því frv. Þar er tekið á almennu námi sem er hliðstætt námi við grunnskóla, framhaldsskóla eða háskóla. Einnig er fjallað um starfsnám og félagslega menntun og fleira.
    Þó að ég telji mjög gott að fá þetta frv. og hafi nokkrar athugasemdir og spurningar, sem ég vildi koma á framfæri, finnst mér miður að ekki skyldi hafa náðst samkomulag um það innan Stjórnarráðsins hvernig með þetta mál skyldi fara. Þarna verður óhjákvæmilega mikil skörun og getur orðið til þess að verkefnum sé drepið á dreif og ekki tekið á þessum málum heildstætt eins og þó er gert ráð fyrir í frv. ef það verður að lögum. Það kemur í athugasemd við 3. gr. en þar segir: ,,Vonast er til að þetta fyrirkomulag``, þ.e. fyrirkomulag um fullorðinsfræðsluráð sem verið er að tala um, ,,leiði til nauðsynlegs samræmis og samstarfs þeirra sem fást við fullorðinsfræðslu.`` Auðvitað getur maður alltaf vonað en ég óttast að það rætist því miður ekki. Á bls. 5 í greinargerðinni segir, með leyfi forseta, þegar talað er um yfirstjórn fullorðinsfræðslu: ,,Þó fjallar kaflinn um yfirstjórn fullorðinsfræðslu að hluta um starfsmenntun í atvinnulífinu samanber athugasemd við 3. grein.`` Það las ég áðan. ,,Rétt er að leggja áherslu á að við setningu laga um starfsmenntun í atvinnulífinu og samningu reglugerða á grundvelli hvorra tveggja laganna er nauðsynlegt að gæta fyllsta samræmis, þannig að öll fullorðinsfræðsla eigi heima undir tilteknum lögum og geti notið tilstyrks sem í þeim lögum felst.``
    Ég er þessu innilega sammála en ég átta mig ekki á því hvernig það fellur undir tvo lagabálka. Ég endurtek þó að ég tel betra að fá þetta allt saman fram og athuga hvernig málin þróast og hvernig þetta muni þá ganga með því að hafa það undir þremur ráðuneytum og lít á það sem tímabundið fyrirkomulag enda minnir mig að í frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu sé gert ráð fyrir endurskoðun laganna eftir þrjú ár. Þá hlýtur að þurfa að endurskoða það sérstaklega með tilliti til þessa atriðis, þ.e. hvort ekki sé rétt að setja ein almenn lög um alla fullorðinsfræðslu.

    En það er 3. gr. sem mér finnst dálítið sérkennileg og ástæða til að spyrja hvað ráðherra hefur í huga og hvort hann hefur hugleitt hversu margir yrðu í þessu fullorðinsfræðsluráði. Hann minntist á að gert hafi verið ráð fyrir þrettán manns í fyrra frv. og þar af hafi verið tólf sem voru tilnefndir af ákveðnum fulltrúum og einn frá ráðuneytinu væntanlega. Mér þykir sérkennilegt að ekkert skuli vera kveðið á um það hverjir ættu að eiga sæti í þessu ráði, hvorki fjöldi né á neinn hátt gefið til kynna hverjir ættu sæti þar.
    Mig langar að geta þess, virðulegi forseti, hvernig gert var ráð fyrir skipun þessara mála í þeirri nefnd sem Guðrún J. Halldórsdóttir sat í og skilaði til ráðherra tillögum árið 1984, held ég að það hafi verið. Ef ég má lesa upp segir þar orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ráðið skal skipað fjórum fulltrúum tilnefndum af heildarsamtökum þeirra aðila sem annast fullorðinsfræðslu, einum fulltrúa úr fræðsludeild menntmrn., tilnefndum af menntmrh., einum fulltrúa frá Ríkisútvarpinu, tilnefndum af útvarpsráði, og einum fulltrúa, tilnefndum af Sambandi ísl. sveitarfélaga.`` Þarna er Ríkisútvarpið með vegna þess að gert var ráð fyrir að reyna að nýta, eins og gert er í þessu frv,. útvarp og fjölmiðla til hjálpar við kennsluna. Þetta nefni ég ekki vegna þess að ég sé endilega að segja að þetta sé það eina rétta en mér hefði þótt eðlilegra að einhver ákvæði væru í frv. um það hverjir ættu að tilnefna í ráðið. Ég tel einnig nauðsynlegt að ef það verður niðurstaðan að starfsmenntun í atvinnulífinu eigi að heyra undir félmrn. og sjútvrn. sé eðlilegt að sjá um einhverja tengingu þarna á milli meðan það fyrirkomulag er við lýði vegna þess að það getur orðið erfitt skipulagslega.
    Ég legg áherslu á IV. kafla frv. sem er mjög mikilvægur kafli, þ.e. að einhver peningur komi í þetta allt saman. Því miður hefur allt of litlu fé verið varið til menntamála á síðustu árum og ekki batnar það. En ég tel mjög mikilvægt að framlag ríkissjóðs í þennan menntunarsjóð verði þannig að eitthvað sé hægt að gera í þessum málum, það verði ekki skorið við nögl sem þarna er lagt fram. Það er talað um framlag ríkissjóðs á fjárlögum ár hvert og þykir mér mjög mikilvægt að séð sé til þess að hægt sé að taka á þessum málum. En 12. gr. gerir grein fyrir því hverjir geta sótt um styrk í þennan sjóð.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að hafa fleiri orð um málið við 1. umr. en ég legg áherslu á að menntmn. geti fjallað um frv. og við getum afgreitt það fyrir þinglok. Ég get því miður ekki lagt annað til í þeim efnum. Ekki er ég í menntmn. og þess vegna get ég ekki annað en vonað að hægt verði að afgreiða málið fyrir þinglok svo mikilvægt sem ég tel að það sé.