Vernd barna og ungmenna

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 17:58:00 (5241)



     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa talað og lýst stuðningi við frv. í megindráttum. Undirtektir eru yfirleitt jákvæðar. Eins og eðlilegt er hafa komið athugasemdir við ýmsar greinar frv. og ábendingar um það sem betur mætti fara. Ég ætla ekki að fara sérstaklega í þessar einstöku athugasemdir þó að ég hafi skrifað þær að mestu hjá mér en vonast til þess að hv. félmn. taki þessar ábendingar til sérstakrar athugunar. Svo vill til að ýmsir þeir sem hér hafa talað eiga sæti í félmn. og ég efast ekki um að þeir komi þar sínum ábendingum til skila. Ég bendi sérstaklega á í þessu samhengi, og ekki síst vegna þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á því hversu seint málið er lagt fram, að þetta sama frv. fékk á sínum tíma mjög ítarlega umfjöllum í félmn. hv. efri deildar, sem þá var, og til eru umsagnir um frv. frá þeim tíma og með frv. er prentað sem fskj. brtt. sem þáv. félmn. efri deidar hafði orðið ásátt um. Ég vænti þess að félmn. Alþingis taki þær brtt. líka til sérstakrar íhugunar.
    Varðandi athugasemd sem hefur komið fram frá fleiri en einum hv. ræðumanni um 59. gr., það er varðandi það sem segir:
    ,,Barnaverndarnefnd skal eftir því sem hún telur ástæðu til hafa eftirlit með leiksýningum og hvers konar opinberum sýningum eða skemmtunum öðrum en kvikmyndasýningum.``
    Mér þótti gæta dálítils misskilnings og ég held að svo sé. Ég gerði grein fyrir því í framsögu minni að ákvæði gildandi barnaverndarlaga falla brott við samþykkt þessa frv. og ég gerði grein fyrir því að nú væri nánast fullgert frv. í ráðuneytinu um skoðun kvikmynda sem ætlunin var að leggja fram á þessu þingi en tókst ekki en verður lagt fram á haustþinginu. Það var m.a. þess vegna sem ég hreyfði þeirri hugmynd að breytt yrði gildistökuákvæði í frv. þannig að í stað 1. júní öðlaðist það gildi um næstu áramót. Ég vona því að það sé skilið hvers vegna kvikmyndasýningar eru þarna undanþegnar. Það er vegna þess að það er ætlunin að koma með sérstakt frv. og sérstaka löggjöf varðandi skoðun kvikmynda.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi ýmis atriði sem mér þóttu athyglisverð eins og t.d. að það vantaði í frv. ákvæði um siðferðilegar skyldur okkar. Vel má vera að það liggi ekki alveg á borðinu hvort setja eigi í lög ákvæði um siðferðilegar skyldur en hún nefndi þátt fjölmiðla, en þeir hefðu stundum gefið tilefni til þess að þeir yrðu lögsóttir. Ég er alveg sammála þessari athugasemd og held að þetta þyrfti að athuga alveg sérstaklega hvort í nýjum barnaverndarlögum ættu heima ákvæði sem tækju af öll tvímæli um að hægt yrði að beita þegar fjölmiðlar misbjóða börnum en vissulega hefur það gerst.
    Varðandi spurningu hv. þm. um ákvæði 28. gr. og hvort áfengi teldist vímuefni. Ég mundi ætla að ef einhver vafi léki á því í þessu samhengi, í 28. gr., þá ætti að taka áfengi þar með, en mér er ókunnugt um hvernig það er skilgreint í öðrum lögum. En ég mundi telja að það ætti við þarna en ef einhver vafi er á því þá ætti að bæta áfengisneyslu við í upptalninguna.
    Varðandi VIII. kaflann sem hv. þm. spurði einnig um og hvort ákvæði hans skyldu gilda í forsjárdeilum, --- ég held að ég hafi skilið spurninguna rétt --- þá verð ég að hafa ákveðinn fyrirvara á skilningi mínum. Mér sýnist að það væri eðlilegt að kaflinn gilti. Það segir hér raunar í athugasemdum: ,,Kaflinn um málsmeðferð hefur því ekki að geyma tæmandi talningu ákvæða og meðferð mála fyrir barnaverndaryfirvöldum heldur að því marki sem best þykir henta.`` Mér sýnist ástæða til að þessu gefna tilefni og reyndar líka af athugasemdum eins af höfundum frv., að þetta yrði líka tekið til sérstakrar meðferðar í hv. félmn.
    Ég ítreka þakkir mínar fyrir góðar undirtektir sem þetta frv. hefur fengið og þótt það sé seint fram komið læt ég í ljós þá von að það verði reynt að afgreiða málið. Ég ítreka enn að ég tel að sú vinna sem unnin hefur verið í þinginu hér áður geti komið að gagni þótt hún hafi verið unnin af öðrum en nú sitja í hv. félmn.