Rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 18:21:00 (5243)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Sem einn af flm. þessarar þáltill. um rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði hlýt ég að fagna því að hún er hér til umræðu.
    Þjóð sem byggir alla sína afkomu á sjávarafla eða því sem næst ber skylda til að stunda kannanir á lífríki sjávar og þarf í auknum mæli að stunda rannsóknir á fiskstofnum almennt. Ástæðan fyrir því að þessi þáltill. er borin fram er m.a. eins og hv. 1. þm. Vesturl. sagði að um 20 ára skeið hefur verið veidd skel í Breiðafirði og verið mikil búbót. Ég vil segja meira en það því að ég vil meina að þær veiðar hafi haldið uppi vissum blóma, t.d. í Stykkishólmi. En nú er svo komið að nú má aðeins veiða 8.500 tonn en um tíu ára skeið hafa verið veidd 10--11 þús. tonn. Það er ekkert launungarmál að sjómenn á þessu svæði telja að þar sé um meira magn að ræða en má veiða. Þess vegna er nauðsynlegt að sem allra fyrst fari fram rannsókn á því hvort svo sé. Eins og hv. 1. þm. Vesturl. sagði þá eru sjómenn við Breiðafjörð tilbúnir að taka þátt í þessum rannsóknum og hlýtur það að verða mjög til góða fyrir Hafrannsóknastofnun sem að sjálfsögðu mun stunda þessar rannsóknir ef af verður sem við vonum sannarlega.
    Það er ósk okkar sem að þáltill. stöndum að mjög fljótt verði tekið á þessum málum svo að það megi sjást innan tíðar hvernig ástand nytjastofna er í Breiðafirði þannig að áfram sem hingað til megi nýta skynsamlega þá gullkistu sem Breiðafjörðurinn hefur verið og vonandi mun verða um langa tíð. Til þess þurfa þessar rannsóknir að fara fram og

ég vona að sjútvn. muni fljótt og örugglega afgreiða þetta mál. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir þá sem búa á þessu svæði.