Rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 18:24:00 (5244)

     Pétur Bjarnason :
    Herra forseti. Ég kem upp til að lýsa yfir ánægju minni og stuðningi með þessa þáltill. Ég held að það sé mikið hagsmunamál að þessi rannsókn farið fram á Breiðafirði sem eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni er sannkölluð gullkista og hefur verið það í gegnum aldirnar. Vafalaust er þar að finna miklu fjölbreyttara dýralíf en við höfum nýtt fram að þessu og kannski mun fjölbreyttara en við vitum í rauninni um. Í Breiðafirði eru og hafa verið um aldir geysilega gjöful lúðumið, sem mörg hver eru þekkt enn þann dag í dag, en við vitum svo sem ekki hvort svo er um öll þeirra. Kann að vera þó nokkuð mikið af slíku enn. Mér er mjög minnisstætt í sambandi við skelvinnsluna að fyrir rúmum 20 árum þegar vinnsla var að hefjast á hörpudiski var eiginlega ekki litið á þetta í upphafi sem alvöruatvinnugrein heldur var þetta eins konar uppbótarvinna til að nýta húsin þegar rækja var ekki fáanleg eða það fékkst ekki heimild til að veiða rækjuna. Þá þessi skel veidd sem enginn vissi hvaða framtíðarmöguleikar fólust í. Upphaflega var þetta skeljað úr í höndum og þetta var geysilega mikil vinna. Mér er mjög minnisstætt þegar byrjað var að vinna þetta í vélum, það var einmitt samhliða í Stykkishólmi og á Bíldudal þar sem unnið var að þróun þessara véla því að upphaflega brutu þær allar skeljarnar ofan í fiskinn og var mjög erfitt að eiga við þetta. En þróun þessara mála við Arnarfjörð og í Breiðafirði hefur fylgst mjög mikið að. Það hefur sýnt sig á tveimur áratugum að þetta er arðbær atvinnugrein og miðin endurnýja sig að einhverju leyti. Við þurfum að kanna betur hvernig botninn fer við þær veiðiaðferðir sem notaðar eru. Plógarnir eru nokkuð gróf veiðitæki og fara ekki vel með botninn þó það virðist hafa gengið. En þetta þarf að kanna miklu betur.
    Hérna er líka tekið á því að kanna þurfi fleira en hörpudiskinn og rækjuna sem eru það sem við höfum notað langmest á þessum slóðum í Breiðafirði og á ýmsum öðrum fjörðum, t.d. við Arnarfirði. Hér er talað um hörpudisk, hér er talað um ígulker og hér er talað um sæbjúga og ég held að þeir félagar mínir sem ég var að vinna með á unglingsárum við beitingar hefðu látið segja sér það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að það sem hérna er kallað sæbjúga yrði einhvern tímann útflutningsvara, hvað þá matvara. Reyndar höfðum við fjöldamörg önnur nöfn á þessum dýrategundum sem ég ætla ekki að rekja hér en ég býst við að flestir þekki sem hafa verið við sjávarsíðuna. Það er samt staðreynd að það er möguleiki á að nýta þetta kvikindi til útflutnings og til matar og það er auðvitað vel því a.m.k. fannst okkur þá að það væri meira en nóg af þessu, þetta var stundum á hverjum króki þegar við vorum að taka línuna og frekar lítið í það varið. Auðvitað þarf að kanna hvort við getum gert okkur einhverjar nytjar úr þessu eins og öðru. Sama er að segja um trjónukrabba sem hér er nefndur. Hvað snertir kúskelina þá held ég að vandamálið verði ekki aðallega að finna hana og heldur ekki að veiða hana, vandamálið er og verður fyrst um sinn að selja hana og finna markað fyrir hana.
    Ég ætla svo sem ekki að fjölyrða mikið um þessa tillögu en mér finnst gott að hún er komin fram og ég held að við ættum að leggja áherslu á og líta til þess að Hafrannsóknastofnun hefur lítið fjármagn en mörg verkefni og í mörg horn að líta. Kannski sinnum við þessu of lítið, ekki er nægilegt að kanna þessi hefðbundnu mið umhverfis landið og göngur hinna hefðbundnu veiðistofna, við þurfum líka að sinna innfjarðabotnlaginu, kanna hvað það gefur af sér, hvað þar er að finna og efla rannsóknir einmitt á þeim greinum sem eru tiltölulega nýjar en hafa sýnt sig að vera arðbærar og hagkvæmar að flestu leyti.
    Mér finnst mjög ánægjulegt að sá sem hér er fenginn til að gera greinargerð, Hrafnkell Eiríksson fiskifærðingur, lýsir því yfir að hann hafi rætt við nokkra skelveiðiskipstjóra, nú í haust segir hann. Að hver bátur gefi dagsvinnu eða svo í slíkt verkefni sem yrði skipulagt og stjórnað frá rannsóknaskipinu Dröfn í tengslum við aðrar rannsóknir skipsins á svæðinu. Fyrstu viðbrögð manna hafa verið góð en fylgja þarf málinu eftir. Þetta felur það í sér að íslenskir sjómenn eru yfirleitt mjög tilbúnir að taka undir og aðstoða við rannsóknir sem þessar en frumkvæðið þarf að koma frá hinu opinbera, frá Hafrannsóknastofnun, sem hefur yfir sérfræðingunum að ráða. Síðan á að nýta sér þennan góða vilja manna til þess að fylgja málinu eftir.