Rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 18:37:00 (5246)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fagna því að þessi till. til þál. skuli vera komin fram, þakka flm. fyrir það. Við kvennalistakonur höfum lengi haldið því fram að auka þurfi rannsóknir í sjávarútvegi miklu meira en gert hefur verið og teljum að þær ákvarðanir sem hingað til hafa verið teknar í þeim málum hafi ekki byggst á nægum rannsóknum. Þess vegna hlýtur allt sem lýtur að því að auka rannsóknir á sjávardýrum að vera til bóta. Það væri mjög gott ef hægt væri að gera rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði í tengslum við fjölstofnarannsóknir sem fyrirhugaðar eru í sumar. Ég tek undir það að hér eru nefnd mjög mörg botndýr sem hægt væri að nýta ef nægar rannsóknir yrðu bæði á því til hvers þær yrðu nýttar og eins á markaðsmálum í því sambandi.
    Mig langar til að geta þess að á Ísafirði hafa nokkrir ungir menn tekið sig til og hafið tilraunaveiðar á ígulkerum. Einn þeirra er kafari að mennt og hefur unnið mikið við það og þeir hafa hafið tilraunavinnslu á ígulkerum. Ekki er mikið komið út úr því enn þá en þó hafa þeir kannað það að hægt er að fá mjög gott verð fyrir þau. En þetta verkefni er enn verið að þróa.
    Þá vil ég einnig geta þess að á atvinnumálaráðstefnu á Ísafirði í haust var fiskvinnslukona sem hélt mjög gott erindi um botnfiska sem finnast í Ísafjarðardjúpi og hafa komið inn á borð fiskvinnslukvenna til skoðunar en ekki vinnslu. Þetta eru margar óþekktar tegundir sem ekki er farið að nýta enn þá nema hörpudiskinn og kúskelina í litlum mæli. Hún nefndi m.a. sæbjúgu sem hv. 2. þm. Vestf. nefndi áðan og ég í fávisku minni spurði hvað væri. Lýsingin á því var svolítið furðuleg, ég verð að viðurkenna það. Hún sagði jafnframt að búið væri að kanna að þetta væri mjög eftirsótt vara hjá ýmsum erlendum þjóðum þannig að ég er ekki í vafa um að ef rannsóknir mundu verða til þess að eitthvað af þeim tegundum sem nefndar voru fyndust í því magni að hægt væri hefja á þeim veiðar og nýta þær, væri það mjög æskilegt fyrir okkur, ekki síst vegna þess ástands sem er í fiskveiðimálum okkar. Ég vil því lýsa yfir stuðningi við þáltill. og vona að hún fái skjótan framgang og að þessi markaðsleit geti hafist sem fyrst.