Rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 18:44:00 (5248)


     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við þá þáltill. sem er til umræðu.
    Í fyrsta lagi vek ég athygli á hvatningu hv. 4. þm. Reykv. til þingmanna og annarra til þess að halda vöku sinni. Hún var held ég nauðsynleg áminning um að leita allra leiða til að tryggja rétt okkar til nýtingar á hafsbotninum og allri þeirri auðlegð sem þar er að finna.
    Að öðru leyti tek ég undir það sem hv. 7. þm. Reykv. sagði að mjög mikilvægt er að rannsaka rækilega áhrif veiðarfæra á þá stofna sem eru í Breiðafirðinum. Það verður að segjast eins og er að veiðarfæri sem notuð eru til þess að veiða t.d. hörpuskelina eru á vissan hátt frumstæð. Ekki hefur verið lagt mikið í að þróa veiðarfærin. Að vísu hafa komið fram hugmyndir um að nýta dælubúnað til þess að veiða skel. Ég tel að rannsóknastofnanir í samvinnu við útvegsfyrirtækin eigi að taka þátt í að þróa veiðibúnað sem fari betur með botninn og skapi um leið betri möguleika á að nýta þessa auðlind til langs tíma, vonandi ævarandi.
    Til fróðleiks fyrir hv. þm. vil ég geta þess að einn ágætur uppfinningamaður við Breiðafjörð sem hefur verið sjómaður á skelbátum hefur hugleitt hvernig nýta mætti dælubúnað til þess að veiða skelina. Hann hefur kynnt hugmyndir sínar við afskaplega dræmar undirtektir, eins og oft vill verða með hugmyndasmiði, ekki síst þeirra sem í raun ættu að styrkja og styðja slíkar rannsóknir.
    Hjá hv. þm. var komið inn á ýmislegt varðandi þáltill. Ég er ánægður með undirtektir eins og ég sagði í upphafi.
    Varðandi það hvort um ofveiði í firðinum sé að ræða, vil ég ekki segja neitt um á þessu stigi. Á tímabili var veitt mjög mikið, allt upp í 12 þús. tonn. Það var gagnrýnt á þeim tíma, bæði af sjómönnum, forsvarsmönnum byggðanna og fleiri aðilum. Ég ætla ekki að rifja þá sögu upp, hún er til í þingtíðindum ef menn vilja kynna sér hana. En það er mat sjómanna að sum svæði séu ofveidd en e.t.v. mætti nýta önnur svæði betur og enn önnur hafa ekki verið nýtt neitt enn þá e.t.v. vegna þess að búnaður til veiðanna er ekki nægjanlega góður. Þróa þyrfti betri búnað til þess að stunda veiðarnar og nýta fjörðinn þá enn betur en gert er í nú. Það er mat sumra sjómanna að með betri veiðibúnaði mætti auka veiðarnar verulega.
    Þáltill. sem er til umræðu er fyrst og fremst flutt í þeim tilgangi, eins og ég gat um í ræðu minni, að leita nýrra miða, tryggja að ekki verði ofveiði og leita svo aftur nýrra möguleika varðandi önnur botndýr en hörpuskelina. Þetta tel ég afar mikilvægt, ekki bara fyrir byggðirnar við Breiðafjörð heldur einnig byggðir við aðra firði sem hægt er að stunda ámóta veiðar í.
    Að lokum endurtek ég þakkir mínar fyrir ágætar undirtektir frá hv. þm. Ég vænti

þess og vona að hv. sjútvn. taki þáltill. vel áður en hún kemur til 2. umr. og vonandi afgreiðslu sem fyrst og að flutningsmenn fái góðan stuðning til þess að rannsóknir geti hafist, ekki síst ef hætta er á ofveiði því þá er mjög mikilvægt að ekki dragist að rannsaka veiðisvæðin og tryggja okkur hagsæld sem byggir á veiðum úr Breiðafirði ekki síður en öðrum svæðum við landið.