Velferð barna og unglinga

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 18:53:00 (5250)


     Ragnhildur Eggertsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að verða margorð. Ég fagna því að till. til þál. um velferð barna og unglinga er hér til umræðu og tek undir það sem segir í greinargerð að það er óverjandi að Alþingi horfi aðgerðarlaust á að sá fjöldi barna og unglinga er lendir í erfiðleikum fer sífellt vaxandi og lendir því miður oft í miklum erfiðleikum áður en þau ná fullorðinsaldri. Þessi mál eru ekki einkamál hverrar fjölskyldu, heldur mál sem skipta okkur öll. Það er nauðsynlegt að reyna af fremsta megni að finna úrræði til fyrirbyggjandi aðgerða, ekki aðeins til að reyna að koma í veg fyrir þann mannlega harmleik sem á sér orsakir í því þjóðfélagi sem við fullorðna fólkið höfum mótað þótt ég telji það vega mjög þungt heldur líka vegna þess kostnaðar er fylgir úrbótum eftir á þegar skaðinn er skeður. Ég tek undir það með Jóni Helgasyni, sem mælti fyrir þessari þáltill., að málinu beri að hraða og við höfum margt í höndunum til að vinna úr. Ég verð að segja að þennan stutta tíma sem ég er búin að vera á þingi hefur það verið mjög ánægjulegt að sjá að hér eru frv. og þáltill. um velferð barna og unglinga til umfjöllunar. Að vísu dengist sumt hvert af þessu yfir mjög ört þannig að erfitt verður kannski að afgreiða þetta allt í því skyndi sem ætlast er til og sumt ætti náttúrlega ekki að afgreiða með svo miklum hraða.
    Þáltill. eins og þessi er mjög þörf og ég vona að henni verði fylgt eftir. Það verði gert eitthvað í því að reyna að finna fyrirbyggjandi aðgerðir en ekki eingöngu bæta allt af úr þegar skaðinn er skeður þó þess þurfi auðvitað en það er miklu mikilvægara að finna leið til að fyrirbyggja skaðann.