Fréttamaður Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 18:56:00 (5251)

     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 705 um fréttamann Ríkisútvarpsins á Vesturlandi. Þáltill. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra að hlutast til um að Ríkisútvarpið ráði til starfa fréttamann til öflunar frétta fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins og úrvinnslu á fréttatengdu efni frá Vesturlandi fyrir báðar rásir hljóðvarps og sjónvarp. Fréttamaðurinn starfi með fréttariturum útvarps og sjónvarps á Vesturlandi þegar því verður við komið.``
    Þessi þáltill. er komin í beinu framhaldi af fsp. minni fyrr í mánuðinum til hæstv. menntmrh. þar sem ég spurði ráðherra hvað liði því að svæðisútvarpi yrði komið á laggirnar á Vesturlandi. Svör ráðherra voru í þá veru að einhver bið yrði á því vegna fjármagnsskorts og þá kemur þessi tillaga í staðinn sem er að sjálfsögðu mun ódýrari og kostar mjög lítið að fastur fréttamaður sé starfandi í kjördæminu og vinni með fréttariturum á svæðinu.
    Áður hefur verið flutt álíka þáltill. hér. Það var á 113. löggjafarþingi. Það var fyrrv. þingmaður, Skúli Alexandersson, sem flutti þá tillögu ásamt öllum þingmönnum Vesturlands. Sú tillaga dagaði uppi í nefnd en ég vona svo sannarlega að það verði ekki örlög þessarar þáltill. því að það er mjög mikilvægt fyrir öll byggðarlög að hafa eðlilegan fréttaflutning frá sínum svæðum. En það er langt frá að það geti talist þegar það er undir hælinn lagt hvernig fréttum er hagað af svæðunum.
    Það eru ein tíu ár síðan að svæðisútvarp tók til starfa á Akureyri og það segja allir sem hafa notið þess og einnig á Vestfjörðum, þó það sé styttra síðan það var tekið í notkun, að það hafi gjörbreytt fréttaflutningi frá þessum svæðum og þar að auki hafi byggðirnar innbyrðis tengst miklu betur en áður var. Því er það svo að þeir, sem ekki njóta þessarar þjónustu, knýja náttúrlega dyra um að fá hennar notið hið allra fyrsta.
    Ég vona að þessi tillaga fái hraða meðferð og að lokinni umræðu um hana legg ég til að henni verði vísað til hv. menntmn. Ég hef ekki hugsað mér að hafa fleiri orð um hana. Þetta er að mínu mati sjálfsagt mál og ekki málefni sem kostar mikla peninga.