Fréttamaður Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 19:00:00 (5252)


     Pétur Bjarnason :
    Herra forseti. Það var aðeins vísað til Vestfjarða hjá hv. flm. áðan og mér finnst skylt að segja að einhverju leyti frá reynslu okkar af því að hafa fréttamann Ríkisútvarpsins að störfum. Hún er í stuttu máli góð. Okkur finnst mjög gott að vita af fréttamanni Ríkisútvarpsins og þó fannst okkur hvað mest breyting þegar komið var á svæðisútvarpi og hljóðstofu útvarps þar fyrir vestan. Það vill svo til að ég hef fylgst með þróun þessara mála frá því að fyrst var ráðinn fréttamaður. Hann starfaði fyrst við mjög frumstæð skilyrði, hann hafði upptökutækið sitt, svokallaðan ,,nagra``, á öxlinni og hafði húsgagnalaust herbergi að heita mátti til að sinna þeim verkum sem hann tók að sér. En þótt aðstaðan væri svona frumstæð í upphafi þá var þetta samt sem áður að okkar mati mjög gagnlegt. Við fengum í rauninni miklu meiri umfjöllun um það sem var að gerast á Vestfjörðum. Við fengum líka meiri tilfinningu fyrir fréttnæmu efni í kringum okkur.
    Eins og ég sagði var kannski mesta breytingin þegar svæðisútvarpið kom með tiltölulega fullkomna hljóðstofu, aðstöðu til að taka upp útvarpsefni og til að búa til dagskrár. Það hefur orðið til þess að nokkur störf hafa skapast þarna og þó ekki sé annað en það þá er það mjög mikils virði auk þess sem okkur finnst að við eigum mun meiri þátt í því sem verið er að gera í kringum Ríkisútvarpið. Reyndar liggur við að það sé öfugmæli að tala um svæðisútvarp Vestfjarða vegna þess að það væri nær að kalla það svæðisútvarp Ísafjarðar þar sem svæðisútvarpið nær aðeins um Ísafjarðardjúp og vestur um til og með Þingeyri. Á Ströndum heyrist í Svæðisútvarpi Norðurlands frá Akureyri en ekki í Svæðisútvarpi Vestfjarða. Byggðirnar við Arnarfjörð og þar vestar, Tálknafjörður, Patreksfjörður, Rauðisandur, Barðaströnd og Reykhólar hafa ekki Svæðisútvarp Vestfjarða og heyra ekkert í því. Einu afskipti þessara sveitarfélaga, bæði á Ströndum og Barðastrandarsýslu, eru að þau senda samt reglulega efni til Svæðisútvarps Vestfjarða.
    Ég held að það væri mjög til bóta að starfsemi sem þessi kæmi á Vesturland. Og hugsanlega, ég þekki ekki nægilega vel tæknileg atriði, yrði að vera svo að byggðirnar við Breiðafjörð, þ.e. Barðastrandarsýslur og Vesturland mundu starfa sameiginlega að svæðisútvarpi.
    Nú var það kannski svo að svæðisútvarp var að nokkru leyti hugsað á kjördæmagrundvelli. Svæðisútvarp kom fyrir austan, síðan í Norðurlandskjördæmin en samt sem áður, eins og hér kemur fram þá nær Svæðisútvarp Vestfjarða ekki til nema litlu broti af Vestfjörðum. Út af fyrir sig tel ég mjög líklegt að tæknilega væri mun auðveldar að tengja syðri hluta Vestfjarða útvarpi á Vesturlandi og hugsanlega svæðisútvarpi ef það nafn helst áfram í tengslum við það.
    Ég vil styðja þessa tillögu og tel að hún sé allra góðra gjalda verð.