Fréttamaður Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 19:03:00 (5253)


     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. 1. flm. þessarar þáltill. hefur verið leitað eftir því áður að koma á stofn svæðisútvarpi fyrir Vesturland. Það hafa verið fluttar um það tillögur á Alþingi en ekki haft erindi sem erfiði. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa ítrekað ályktað og óskað eftir að komið yrði á betri þjónustu Ríkisútvarpsins og því hefur verið fylgt eftir. Að öðru leyti er það að segja um þessa tillögu er að Vestlendingar leggja á það mjög mikla áherslu að fá þessa þjónustu. Hún hefur gefið góða raun í öðrum landshlutum eins og fram hefur komið í þessari umræðu. En það er þannig að fréttastofa Ríkisútvarpsins sérstaklega hefur hálft í hvoru haft horn í síðu svokallaðra fréttaritara. Þeir þykja ekki alltaf vinna faglega að mati fréttastofunnar og þess vegna vill fréttastofan sjálf ráða lögum og lofum um það hvernig unnið er að fréttaöflun og fréttavinnslu. Ég tel að það sé mun æskilegra á allan hátt og líklegt til betri vinnubragða að starfsmenn Ríkisútvarpsins, sem í þessu tilviki er verið að fjalla um, séu á vettvangi, þekki aðstæður og geti fjallað um þau mál sem eru efst á baugi af einhverri þekkingu. Það vill oft brenna við að fréttamenn, sem sendir eru út af örkinni, með allri virðingu fyrir þeim, kynni sér ekki nægjanlega vel allar aðstæður og fái kannski ekki að öllu leyti þá tilfinningu sem þarf að hafa til að geta fjallað með bærilegum hætti um fréttir á líðandi stundu miðað við tiltekið svæði. Þess vegna tel ég að það sé mun æskilegra að Ríkisútvarpið hafi sína fréttamenn í landshlutum og það hljóti að vera hægt að taka með einhverjum hætti til við Efstaleitið þannig að hægt sé að losa þar um einn starfsmann eða svo til að hafa hann staðsettan á Vesturlandi og þjóna þannig þeim landshuta eins og vera ber.
    Ég vil ekki hafa þessi orð fleiri en ég legg áherslu á að þessi þáltill. nái fram að ganga. Að vísu veit ég að þær mótbárur munu heyrast frá Ríkisútvarpinu að ekki séu til fjármunir, stofnuninni sé þröngt sniðinn stakkurinn, Ríkisútvarpið hafi ekki þær tekjur sem það eigi að hafa o.s.frv., en ég tel að í Ríkisútvarpinu hljóti að vera hægt að hagræða og

bæta reksturinn með þeim hætti eins og í öðrum stofnunum á vegum ríkisins, sem unnið er að hagræðingu í, á þann veg að það verði hægt að halda úti fréttamanni eða svæðisútvarpi fyrir Vesturland.