Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 13:43:00 (5255)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að fylgja hér úr hlaði frv. til laga um breyting á lögum nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Frv. þetta er að finna á þskj. 700 og er 442. mál yfirstandandi Alþingis.
    Þetta frv. var samið að frumkvæði stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Helsti tilgangur frv. er að samræma reglur Söfnunarsjóðsins reglum hinna almennu lífeyrissjóða.
    Í stjórn Söfnunarsjóðsins sitja fulltrúar lífeyrissjóðasambandanna, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og fulltrúar ríkisins.
    Í 1. gr. frv. er fjallað um ávöxtun fjár. Samkvæmt frumvarpsgreininni fær sjóðurinn með þessu ákvæði heimild til að fjárfesta í hlutabréfum. Eingöngu verður heimilt að kaupa bréf sem hafa skráð kaup- og sölugengi á markaði og eigi verður heimilt að kaupa fyrir meira en 10% af árlegu ráðstöfunarfé og ekki heimilt að eiga meira en 10% af hlutafé í hverju fyrirtæki. Heildarhlutabréfaeign sjóðsins má aldrei nema meiru en 15% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Flestir lífeyrissjóðanna hafa nú sambærilegar heimildir. Er orðið mjög brýnt að Söfnunarsjóðurinn geti fjárfest í hlutabréfum. Ef miðað er við árið 1991 fela framangreindar heimildir í sér að sjóðurinn gæti keypt fyrir um 110 millj. kr. á ári.
    Í 3. og 4. gr. er fjallað um verðtryggingu. Lagt er til í 3. gr. að við stigaútreikning verði í stað grundvallarlauna miðað við grundvallarfjárhæð sem tengist lánskjaravísitölu. Grundvallarfjárhæð þessi er 45.602 kr. miðað við janúar 1992. Þetta ákvæði er samhljóða 1. gr. laga nr. 80/1991, um breytingu á lögum um eftirlaun til aldraðra. Breytingin er því gerð til samræmis við þau lög.
    Lagt er til í 4. gr. að greiddur lífeyrir verði verðtryggður miðað við lánskjaravísitölu. Sjóðurinn hefur frá upphafi greitt verðtryggðan lífeyri. Breytingin er gerð til samræmis við breytinguna á stigaútreikningnum skv. 3. gr. og ég hef áður minnst hér á.
    Í 6. gr. frv. er gerð breyting á lífeyrisréttindum. Þar er lagt til að ráðherra verði heimilt að breyta með reglugerð ákvæðum laganna um lífeyrisréttindi, þ.e. elli-, örorku- og makalífeyri til samræmis til lífeyrisréttindi eins og þau eru hjá lífeyrissjóðum innan SAL og Landsambands lífeyrissjóða. Eðlilegt er að lífeyrisréttindi hjá Söfnunarsjóðnum taki mið af því sem almennt tíðkast hjá lífeyrissjóðum. Því kann að reynast nauðsynlegt að breyta lífeyrisréttindum hjá sjóðnum nokkuð oft og er þá heppilegra að unnt sé að gera það með reglugerð heldur en að þurfa að breyta lögum með atbeina Alþingis.
    Í 2. og 5. gr. er fjallað um dráttarvexti og endurgreiðslur. Samkvæmt 2. gr. verður heimilt að reikna dráttarvexti 20 dögum eftir gjalddaga í stað 30 daga nú. En skv. 5. gr. verður sjóðnum skylt að endurgreiða þau iðgjöld sem hann fær vegna manna sem orðnir eru 75 ára eða eru ekki orðnir 16 ára. Nú er eingöngu heimilt að endurgreiða launþegahluta iðgjalda þeirra sem orðnir eru 75 ára. Ákvæði um endurgreiðslu iðgjalda til útlendinga er efnislega óbreytt frá núgildandi 16. gr. laga um Söfnunarsjóðinn.
    Ég hef nú lýst meginefni frv. Í fyrsta lagi er lagt til að sjóðurinn fái heimild til að fjárfesta í hlutabréfum í fyrirtækjum. Og til að tryggja að sjóðurinn kaupi hlutabréf á markaðskjörum og þau séu auðseljanleg er sett það skilyrði að viðkomandi bréf hafi skráð kaup- og sölugengi á markaði hjá viðurkenndu verðbréfaþingi eða a.m.k. tveimur verðbréfafyrirtækjum.
    Þá er í öðru lagi eins og fram hefur komið lagt til að stigaútreikningur sjóðsins taki frá og með byrjun þessa árs mið af lánskjaravísitölu og þannig verði í stað grundvallarlauna miðað við grundvallarfjárhæð sem verði 45.602 kr. miðað við janúar 1992.
    Í þriðja lagi er lagt til að verðtrygging á lífeyrisgreiðslum sjóðsins verði lögbundin. Miðað við þá breytingu sem hér er lögð til á viðmiðun stigaútreiknings er fyrirsjáanlegt að sjóðurinn muni standa undir því að greiða verðtryggðan lífeyri hér eftir sem hingað til. Enda kemur fram í athugasemdum með frv. að á árinu 1991 hafi sjóðurinn náð 7,8% raunávöxtun á eignir sínar miðað við lánskjaravísitölu og að samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt á fjárhagsstöðu sjóðsins í árslok 1988 þurfi hann að ná 2,92% nettóávöxtun umfram hækkun launa á eignir sjóðsins að óbreyttu iðgjaldi og reglum um lífeyrisréttindi til að eignir standi undir framtíðarskuldbindingum hans.
    Í fjórða lagi vil ég geta þess að eins og fram hefur komið er lagt til að ráðherra geti með reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins, breytt lífeyrisákvæðum. Á það er minnt að þegar lögin um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda voru sett tóku lífeyrisákvæði þeirra mið af þáverandi samræmdri reglugerð SAL-sjóðanna. Síðan hafa reglugerðir SAL-sjóðanna breyst með ýmsum hætti og það þykir fullviðurhlutamikið að Alþingi þurfi að breyta lögum þótt um slíkar breytingar verði að ræða. Þess vegna er lagt til að ráðherra fái þessa heimild, en þess ber að geta að flestir lífeyrissjóðir starfa samkvæmt reglugerðum sem fjmrn. þarf að staðfesta.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi með þessari stuttu ræðu lýst flestum helstu efnisatriðum frv. Frv. er flutt, eins og sagt hefur verið, að tilhlutan stjórnar Söfnunarsjóðsins. Þess er getið í athugasemdunum hverjir sitja í þeirri stjórn og þess óskað að málið fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Þess vegna geri ég tillögu um að málinu verði vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.