Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 13:51:00 (5256)


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég tel að það mál sem hér er flutt sé í sjálfu sér sjálfsagt og eðlilegt að greiða fyrir því að þessi lífeyrissjóður geti keypt hlutabréf í fyrirtækjum með sama hætti og aðrir lífeyrissjóðir og stjórn sjóðsins fái þannig heimild til að fjárfesta í slíkum eignum. Það er mjög mikilvægt að lífeyrissjóðir landsins ráðstafi hluta af fjármagni sínu til að efla atvinnulíf landsmanna, ekki síst um þessar mundir þegar atvinnuástandið er heldur bágborið og lítill kraftur í uppbyggingu atvinnulífsins.
    En ég vil af þessu tilefni benda hæstv. fjmrh. á að það er ekki nóg að heimila lífeyrissjóðunum að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum, það er jafnframt mikilvægt að það sé farið í skattalegu tilliti eðlilega með þau mál. Ég vil minna hæstv. fjmrh. á það að sú ríkisstjórn sem hann á sæti í hefur skapað mikla óvissu í þessum málum því samkvæmt lögum er nú ekki lengur heimilt að draga arðgreiðslur frá tekjum fyrirtækja. Að vísu hefur verið samþykkt ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir að það ákvæði komi ekki til framkvæmda fyrr en síðar. Þetta ákvæði skapar verulega óvissu á hlutabréfamarkaðinum og er nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu og kveða skýrt á um það hvernig eigi að meðhöndla arð í skattalegu tilliti í framtíðinni. Það er ekki hægt, hæstv. fjmrh., að bjóða þeim aðilum sem vilja fjárfesta með þessum hætti upp á slíka óvissu. Ég hef áður gert þetta mál að umtalsefni en þetta frv. gefur tilefni til að endurtaka það.
    Hér er vissulega góður vilji og eðlilegar heimildir sem koma fram, í þessu frv. en ég vil leyfa mér að leggja til að í tengslum við það verði þessari óvissu eytt og skattalög færð í fyrra horf, enda er það ósiður að breyta skattalögum og setja síðan ákvæði til bráðabirgða um það hvenær breytingin eigi að koma til framkvæmda. Þetta er meiri háttar klúður sem ég að vísu hlýt að rekja til einhvers óskiljanlegs ósamkomulags í ríkisstjórninni og skilningsleysis ákveðinna ráðherra á mikilvægi hlutabréfamarkaðar og mikilvægi þess að lífeyrissjóðirnir komi inn í atvinnulífið, en ég trúi því vart að slíks skilningsleysis gæti hjá hæstv. fjmrh. Því vildi ég spyrja hvort ekki sé rétt að nota tækifærið og gera breytingu á skattalögum í tengslum við þetta frv. ( GHelg: Ég get fallið frá orðinu, forseti, ég ætlaði eiginlega að segja það sama.)