Yfirskattanefnd

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 14:22:00 (5261)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þetta frv. á sér alllangan aðdraganda en síðast þegar fjallað var um þetta mál, var það gert í tengslum við frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem var flutt af fjmrh. fyrr á þessu þingi. Það frv. fékk umfjöllun í efh.- og viðskn. en það varð að samkomulagi við afgreiðslu þess máls að taka ákvæðin sem snertu breytingar á ríkisskattanefnd út úr því frv. og fjalla um það mál síðar á þessu þingi.
    Þetta frv. er flutt í samræmi við það sem kom fram við meðferð þess máls og lýsti ég því yfir í efh.- og viðskn. að ég væri tilbúinn til að taka þátt í meðferð þessa máls síðar á þessu þingi og mun að sjálfsögðu standa við það.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara út í ítarlega umfjöllun um málið hér við 1. umr. Það er út af fyrir sig gagnlegt að setja sérstaka löggjöf um þennan dómstól og ég hef engar athugasemdir við það að gera að hann heiti yfirskattanefnd. Það er rétt, eins og fram kemur í athugasemdum með frv., að nefndin hefur fram til þessa fjallað um hagsmunamál fleiri aðila sem hafa tekjur af þegnum landsins en ríkisins og er áreiðanlega rétt að það mun hjálpa almenningi að skilja betur að ríkisskattstjóraembættið er allt annað embætti en ríkisskattanefnd.
    Sá háttur hefur verið hafður á að fjórir af nefndarmönnum hafa verið í hlutastarfi og hafa verið nokkurs konar fastir meðdómendur í nefndinni en það er alkunna að dómstólar landsins kalla til meðdómendur í ýmsum málum og verður þá að gæta þess að þeir séu ekki vanhæfir til að gegna skyldum sínum. Þau rök eru nú færð fram að þar sem þessir föstu meðdómendur kunni að reka mál fyrir ríkisskattanefnd sem er áreiðanlega rétt, þá séu þeir ekki hæfir. Ég er ekki sammála þessari túlkun, enda komi viðkomandi aðilar ekki nálægt þeim málum sem þá snerta. Ég held að það hljóti að vera alveg ljóst að í mörgum tilvikum eru meðdómendur sem koma að dómstólum landsins jafnframt málaflutningsmenn í svipuðum málum þótt það snerti aðra einstaklinga.
    Ég er þeirrar skoðunar að það tryggi meiri breidd og réttlátari úrskurði að hafa menn með sem víðtækasta þekkingu og reynslu og ég hef ákveðnar efasemdir um að það muni takast að fá til þessara starfa í einu vetfangi sex aðila sem munu geta tekið við skyldum þeim sem hvíla á núverandi ríkisskattanefnd. Ég vil í þessu sambandi, með leyfi forseta, m.a. benda á að skv. 23. gr. er gert ráð fyrir að yfirskattanefnd skuli hefja störf 1. júní 1992. Skal hún þá taka við störfum ríkisskattanefndar og sektarnefndar staðgreiðslu. Frá sama tíma skuli ríkisskattanefnd ljúka störfum.
    Ég held að það sé nokkuð ljóst að það er ekki hægt að leggja niður starf sem þetta í einu vetfangi og stofna til nýrrar nefndar nema að tryggt sé að það starf sem í gangi er færist með eðlilegum hætti yfir í hina nýju nefnd. Ég hygg að engum manni dytti í hug að leggja niður einn af dómstólum landsins í einu vetfangi og færa alla skjalabunkana á einum degi yfir í einhvern annan dómstól. Ég á ekki von á því að það verði til þess að stytta biðtímann að því er þessa nefnd varðar og ég tel það í reynd vera villandi sem hér kemur fram í greinargerð með þessu frv. en þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Nú bíða afgreiðslu hjá nefndinni 1.400 mál og er það svipað og hefur verið undanfarin ár. Algengur biðtími frá því að kærandi leggur fram kæru er 1--2 ár en þó eru þess dæmi að gjaldandi hafi þurft að bíða í 3 1 / 2 ár þar til að ríkisskattanefnd lagði úrskurð á deilumálið. Leita má skýringa á hægfara málsmeðferð m.a. til þess að í nefndinni sitji menn í hlutastarfi.
    Ástand þetta er með öllu óviðunandi og nauðsyn ber að efla starfsemi æðsta úrskurðarvaldshafa á stjórnsýslustigi í skattamálum með þeim hætti að tryggt sé að gjaldendur geti fengið úrlausn mála sinna með eðlilegum hætti á tilskildum tíma.``
    Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fram kemur frv. til laga um breytingar á skattalögum þar sem því er haldið fram að nú eigi að bæta framkvæmd skattamála með því að

setja nýja löggjöf. Ég tel að miklar breytingar á skattalögum, þar sem látið er í það skína að nú muni allt breytast í skattamálum vegna lagabreytinga, séu misvísandi. Framkvæmd skattamála verður ekki lagfærð með lagabreytingum almennt séð. Framkvæmd skattamála verður fyrst og fremst lagfærð með því að breyta starfsemi hjá þeim aðilum sem fara með þessi mál og fjölga fólki eða þá að auka hagræðingu og það hefur ekkert með lagabreytingar að gera. Það má segja að þessi meinloka sé ekki aðeins ríkjandi í skattamálum heldur í ýmsum öðrum málaflokkum í þjóðfélaginu. Það er eins og menn haldi að með því að skrifa ný orð á blað og fá þau samþykkt hér á Alþingi muni allt breytast, biðtímar styttast og allir verða hamingjusamir sem í kringum þessi mál starfa og þurfa að una úrskurðum nefndanna. Þannig var gert ráð fyrir því þegar ríkisskattanefnd var sett á stofn að biðtíminn yrði aldrei lengri en sex mánuðir. Komið hefur í ljós að biðtíminn er miklu lengri og nú er látið í það skína að með því að fjölga í nefndinni verði hægt að standa við að biðtíminn verði innan við þrír mánuðir. Ég tel að þetta sé af og frá og ekkert sem kemur í veg fyrir það að fjmrn., undir forustu hæstv. fjmrh., geti ráðið fleira fólk til starfa hjá ríkisskattanefnd. Ég veit ekki til þess að það sé nokkurt lagaákvæði sem bannar það að fleira fólk vinni að þessum störfum. Það er ekki endilega nauðsynlegt að hafa sem flesta yfirmenn í stofnunum og það er ekki einu sinni nauðsynlegt að hafa sérstaka eftirlitsmenn með stofnunum. Það tryggir ekki endilega góða framkvæmd. Það sem skiptir máli er eðlileg verkaskipting og nægilega mikið af hæfu starfsfólki.
    Hvers vegna hefur ekki verið ráðið fleira fólk til ríkisskattanefndar til að bæta úr þessu ástandi? Er það vegna þess að ríkisskattanefnd hafi ekki farið fram á það? Eða gæti verið að þar sé um að kenna almennum fjárskorti hjá ríkinu eins og í svo mörgu öðru? Hér er gert ráð fyrir því samkvæmt áliti fjmrn., sem ég skal ekki leggja neinn dóm á, að kostnaðarauki af þessu frv. sé 6--7 millj. kr. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það vera heldur lág áætlun, en hvað um það, við skulum segja að hún sé rétt. Er gert ráð fyrir slíkri fjárveitingu í fjárlögum, hæstv. fjmrh.? Og hvernig verður það tryggt að þetta fé verði til ráðstöfunar fyrir ríkisskattanefnd? Ef þetta frv. verður ekki að lögum, getur þá núv. ríkisskattanefnd fengið þetta fé til umráða til að bæta úr um úrskurð mála eins og nú standa sakir?
    Ég vil aðeins ítreka það, virðulegur forseti, að ég tel sjálfsagt að taka þetta mál til umfjöllunar og greiða fyrir afgreiðslu þess. Ég er sammála mörgu sem þar kemur fram og meginstefnu í frv., en ég verð að segja það alveg eins og er að það er leitt að þurfa að lesa það skipti eftir skipti að vöntun á löggjöf komi í veg fyrir betri framkvæmd skattamála. Þessu hefur verið haldið fram allt of lengi og er kominn tími til að hætta að skrifa slíka texta í þau frumvörp sem hér eru flutt að því er varðar skattamál. Sannleikurinn er sá að það er allt of mikið af breytingum á skattalögum sem koma fyrir Alþingi en of lítil áhersla lögð á betri framkvæmd þeirra skattalaga sem eru í gildi.