Yfirskattanefnd

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 15:15:00 (5266)



     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin sem voru greinargóð og ítarleg og málefnaleg í hvívetna. Hæstv. ráðherra hefur sem sagt svarað því að ástæða þess að þetta sé talið upp svona í 2. gr. sé sú að um takmarkandi ákvæði sé að ræða og ég spurði nú einmitt eftir því hvort ekki hlyti í raun og veru að vera einhver slík ástæða fyrir því að menn sæju ástæðu til að telja þetta sérstaklega upp. Ég skildi hann svo að þannig væri þar sem undir ríkisskattanefnd, eða yfirskattanefnd, heyrðu ekki öll þau mál sem þó teljast til skatta. Og þá er það e.t.v. þannig að það sé ekki annar kostur betri í þessu en sá að telja jafnan upp öll þau svið skattheimtu, gjaldákvörðunar um skatta og gjöld, sem nefndin skuli hafa á sínu verksviði á sínum tíma. Þar með er líka verið að segja að hæstv. fjmrh. verður að leggja það á sig eða leggja það á Alþingi að breyta þessum lögum í hvert

skipti sem hann tekur upp nýjan skatt, en eins og dæmin sanna getur það orðið oft á ári eins og við fengum að upplifa hér á síðasta þingi eða reyndar þessu. Og þá það. Þá er ekki um það að fást. Ég er enn ekki sannfærður um að tæknilega sé ekki hægt að útfæra þetta öðruvísi en það er kannski ekki stórt mál og út af fyrir sig er mér ekkert að vanbúnaði að taka þátt í því með hæstv. fjmrh. jafnan þegar hann kemur hér inn með hugmyndir um nýja skatta, hvort sem það eru lögregluskattar eða einhverjar aðrir skattar, að aðstoða hann við nauðsynlegar lagabreytingar í því sambandi. Það er mér ljúft og skylt.
    Það gerir þetta mál síst lakara að ættgöfgi þess skuli vera svona mikil eins og hér hafa verið færðar sönnur á og það er auðvitað ánægjulegt að hæstv. núv. fjmrh. veit engin rök sterkari í neinu máli en þau að þetta mál sé frá forvera hans komið. Þá jafngildir það því að málatilbúnaðurinn sé nánast fullkominn og ekki þurfi frekari vitna við um hvílíkt snilldarverk sé þar á ferðinni og undir þetta get ég að sjálfsögðu tekið með hæstv. fjmrh. Það er auðvitað ekki hægt að gefa neinu máli og allra síst frá núv. ríkisstjórn betri einkunn en þá að hún sé að endurflytja mál frá tíð fyrri ríkisstjórnar.