Fjáraukalög 1991

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 15:47:00 (5269)


     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Út af þessari athugasemd forseta um tímasetningar og ákvörðun um að halda umræðum áfram í kvöld vil ég aðeins láta það koma fram að ég get því miður ekki verið á kvöldfundi í dag af því að ég hafði áður en það lá fyrir að um kvöldfund yrði að ræða ráðstafað tíma mínum til annarra fundahalda, sem er auðvitað leitt af því að að sjálfsögðu verða störf Alþingis að ganga fyrir öðrum fundum ef mögulegt er, en svona stendur nú á. Ég mun því reyna að ljúka máli mínu ef ég má, jafnvel þó það fari kannski einhverjar mínútur fram yfir kl. fjögur en mun þó reyna að teygja það ekki um of og vona að þeim fyrirspurnum sem ég kann að beina til hæstv. fjmrh. verði svarað í umræðunum þó að ég kunni að verða fjarstaddur.
    Frv. það sem hér er til umræðu, frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1991, fjallar að þessu

sinni fyrst og fremst um lokaniðurstöður á greiðslum úr ríkissjóði til ráðuneyta og ríkisstofnana, svo sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. Það undraði mig hins vegar nokkuð að hann skyldi eyða meginhluta af máli sínu í að tala um fyrri mál sem í þinginu hafa verið rædd áður, þ.e. um fjáraukalög sem voru hér til umræðu í haust, um framkvæmd ríkisfjármála almennt á síðasta ári. Hér liggur að vísu fyrir skýrsla um ríkisfjármál fyrir árið 1991 á þskj. 463 og hefði kannski verið ástæða til að taka sérstaka umræðu um það skjal. Nú er það ekki á dagskránni, heldur fyrst og fremst þetta frv. sem er á þskj. 701 og ég hafði gert ráð fyrir að umræðan mundi fyrst og fremst snúast um það. Þar að auki vil ég benda á það að fyrrv. hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu en að sjálfsögðu ber hann kannski fyrst og fremst ábyrgð á fjárlögum síðasta árs, eins og þau eru lögð fram í árslok og samþykkt í árslok 1990, þó svo að ríkisstjórnin fyrrverandi öll beri auðvitað ábyrgð á þeim fyrir sitt leyti. En hæstv. fjmrh. ræddi allnokkuð um framkvæmd ríkisfjármála á seinasta ári.
    Mig langar í sambandi við það aðeins að geta þess --- án þess að blanda mér þó mikið inn í deilur hæstv. núv. fjmrh. og fyrrv. fjmrh. um einstaka þætti í framkvæmd ríkisfjármálanna, svo sem um innheimtu virðisaukaskatts, svo ég nefni eitthvað sem hefur borið hér á góma áður --- að það hlýtur að vekja nokkra athygli og vekja upp spurningar hversu tekjuáætlunin hefur illa gengið eftir hvað varðar innheimtu virðisaukaskattsins þrátt fyrir veltuaukningu og aukningu á tekjum af innflutningi og ýmsum öðrum póstum í okkar efnahagslífi sem hefði jafnframt átt að leiða til þess að tekjur af virðisaukaskattinum hefðu átt að aukast eða a.m.k. standast fyllilega þá áætlun sem gerð var.
    Hæstv. fjmrh. nefndi það að vísu að hann teldi að sú áætlun sem sett var í fjárlög á sínum tíma, fjárlög fyrir árið 1991, hefði verið óraunhæf, henni hefði verið breytt án sérstaks rökstuðnings annars en þess að til stæði að efla eða bæta innheimtuna. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það á þessu stigi, ég hef ekki í höndum nein gögn til þess að mótmæla slíkri fullyrðingu en veit þó að hæstv. fyrrv. fjmrh. lagði mikla áherslu á bætta innheimtu skatta, þar á meðal virðisaukaskatts með ýmiss konar aðgerðum, hertum aðgerðum, stórhertum innheimtuaðgerðum, mikilli auglýsingaherferð og ýmsu fleiru sem gripið var til, enda fékk hann af því, a.m.k. í máli sumra, viðurnefni sem ég er ekkert að hafa eftir hér (Gripið fram í.) en gæti verið að hæstv. núv. fjmrh. ætti að reyna að leggja sig fram um að fylgja af miklum krafti eftir þessum innheimtuaðgerðum sem þá var gripið til og sumir hafa leyft sér að álíta að hafi verið slakað á og kunni að vera hluti af því að tekjuöflunin hefur ekki gengið eftir.
    Þá kom einnig fram í máli hæstv. ráðherra að ekki hafi náðst að hrinda í framkvæmd þeim hugmyndum sem uppi voru um aðhalds- og sparnaðaraðgerðir og boðaðar voru við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1991. Vil ég aðeins í því sambandi endurtaka einu sinni enn það sem ég hef þó margsinnis áður sagt varðandi þann þáttinn sem undir ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála heyrði og ég sýslaði sérstaklega með, að þar voru uppi --- og reyndar voru lögð hér fram frv. --- aðgerðir og hugmyndir um verulegan sparnað og kerfisbreytingar og voru lögð fram frumvörp sem áttu að fylgja því eftir og hefðu getað leitt til hundruð millj. kr. sparnaðar ef um það hefði náðst nægilega góð samstaða í fyrrv. hæstv. ríkisstjórn. En þar stóð einkum á ráðherrum Alþfl. og þingflokki Alþfl. að þau frumvörp fengju efnislega umfjöllun á því þingi, þ.e. þegar þau voru lögð fram og hefðu leitt til sparnaðar hefðu þau fengið umfjöllun og afgreiðslu.
    Það var auðvitað hægt að grípa til aðgerða sem drógu úr útgjöldum ríkissjóðs með því að láta fólk borga fyrir þjónustu og fara þar aðrar leiðir í skattheimtu sem í raun varð niðurstaðan hjá hæstv. núv. ríkisstjórn eftir að hún kom til valda. Það var auðvitað afar einföld og auðveld leið að færa og flytja þannig til skattbyrðina. En það var ekki vilji eða stefna fyrrv. ríkisstjórnar og því var ekki gripið til slíkra aðgerða. Það var reynt að knýja fram kerfisbreytingar og hafa áhrif á það með hvaða hætti væri hægt að spara í ríkisútgjöldum á þann hátt fremur en auka álögur á almenning eða einstaklinga.
    Hæstv. forseti. Ég mun þá snúa mér ofurlítið að því frv. sem hér er til umræðu. Ég sé að vísu því miður að tíminn er að renna út en ég vil þó segja það að ég tel að sú aðferð sem hér er boðuð og reyndar sýnd í töflu eða fskj. með grg. frv., sé rétt, að flytja til eignir og skuldir hjá stofnunum eins og þar er gerð grein fyrir og boðað er í þessu frv. Ég tel það vera rétta stefnu og ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hæstv. ráðherra þegar hann nefndi að það kynni að vera afar óeðlilegt ef stofnanir kepptust við að eyða þeim fjármunum sem fjárlög á hverjum tíma úthluta til þeirra fyrir einhverja ákveðna tiltekna dagsetningu.
    Það kann að vera að fresta þurfi ákveðnum verkefnum eða færa til í tíma innan ársins og það getur alveg eins staðið svo á að það sé heppilegt að gera það um eða yfir áramót eins og milli einhverra annarra mánaðamóta á árinu. Ég tel því að hér sé farið í rétta átt hvað þetta varðar og ætti að leiða til betri vitundar forsvarsmanna ráðuneyta og stofnana um meðferð ríkisfjármála að þeir hefðu vissu fyrir því að geta nýtt þessa fjármuni þó síðar yrði. Það getur einnig staðið svo á í sambandi við framkvæmdir eða fjárfestingarliði að einnig sé heppilegra að standa svo að málum sem hér er boðað, enda er þessi hugsun í samræmi við það sem fram kemur í frv. um greiðslur úr ríkissjóði sem hér hefur nýlega verið lagt fram af öllum nefndarmönnum í fjárln. og kemur væntanlega fljótlega til umræðu.
    Varðandi einstaka útgjaldaliði er eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. að þar ber ekki mikið í milli frá þeim fjáraukalögum sem samþykkt voru seint á síðasta ári, lög nr. 75/1991, og því ekki um mikla misvísun að ræða ef tekin er heildarniðurstaða upp á 61 millj. kr., en mismunur er þó nokkur milli einstakra ráðuneyta. Þar kemur t.d. fram að fjmrn. hefur farið allnokkuð fram úr eða 663 millj. á meðan önnur ráðuneyti hafa ekki fullnýtt sínar heimildir, t.d. félmrn., heilbrrn. og viðskrn. sem eru með stærstu tölurnar sem eftir standa. Á því eru ýmsar skýringar eins og ráðherrann nefndi og gerð er grein fyrir því hér í frv. Mig langar þó að spyrja ráðherra aðeins um nokkra þessa liði eins og t.d. það sem ónotað er af hálfu viðskrn. upp á 189,9 millj. kr. Er þar einkum um að ræða sparnað vegna niðurgreiðslna. Ráðherra sagði að það stafaði af minni sölu á þeim vörum sem niðurgreiðslur eiga að ganga til þannig að ekki sé um að ræða sérstakan sparnað eða hagræðingu á þessum lið en það væri fróðlegt að fá aðeins nánari sundurliðun á því hvað það er sem hér hefur ekki gengið eftir eða ekki farið fram svo sem fjárlagaáætlunin gerir ráð fyrir og munar þó þetta miklum upphæðum.
    Eins langar mig að spyrja ráðherra aðeins um þær tölur sem munar um í fjmrn. upp á 663 millj. og ég nefndi áðan, t.d. upphæðir varðandi uppbætur á lífeyri upp á 175,5 millj. en í grg. með frv. er vísað til þess að þar sé um að ræða uppgjör á skuld við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það hefði verið æskilegt að fá aðeins nánari upplýsingar um það eða útskýringu á því í hverju það liggur. Nú vil ég láta það koma fram að fjárln. mun auðvitað fara nánar yfir málið þegar það kemur til meðhöndlunar þar og hefur reyndar nú þegar aðeins litið á þau atriði sem ég er að spyrja um, en það væri æskilegt að fá frekari skýringar hjá hæstv. ráðherra á þessum þáttum við 1. umr. um frv.
    Einnig langar mig að nefna hér þá töluna sem hæst er varðandi umframkostnað í fjmrn. sem eru vextir vegna ýmissa lána ríkissjóðs upp á 475 millj. kr. Í grg. er vísað til þess að það skýrist einkum af hærri yfirdrætti ríkissjóðs hjá Seðlabankanum en gert var ráð fyrir. Vafalaust er það stór hluti af þessu en það væri fróðlegt að heyra það frá ráðherra hvort ekki kunni líka að vera hér að einhverju leyti orsakir hærri vaxta, hærra vaxtastigs sem ég tel að hljóti að hafa haft áhrif á þessar umframvaxtagreiðslur og var auðvitað aðgerð núv. hæstv. ríkisstjórnar fljótt eftir að hún kom til valda að hækka verulega vaxtastigið í landinu.
    Nú langar mig einnig að spyrja hæstv. ráðherra varðandi greiðslu úr iðnrn. til Orkustofnunar upp á 47 millj. kr. en um það segir í greinargerð frv. að skýringin sé sú að stofnunin hafi ekki skilað innheimtum sértekjum til ríkissjóðs fyrr en eftir áramótin. Væntanlega þýðir þetta að það sé nú þegar búið að skila þessari upphæð samkvæmt orðanna hljóðan, en það sem mig langar að vita hjá ráðherra er hvort það er mikið um svona hluti, að sértekjur stofnana renni ekki í ríkissjóð eins og þeim ber og hvort einstakar stofnanir geti notað sértekjur til þess að greiða fyrir aðra þætti í rekstri sínum og komist jafnvel upp

með það í lengri tíma að skila þeim ekki í ríkissjóð svo sem vera ber. Þetta voru nokkur atriði sem mig langaði að nefna varðandi útgjaldahliðina.
    En þá langar mig að koma aðeins aftur að tekjuhliðinni þar sem mismunurinn er upp á tæpa 2 milljarða kr. í frv. og stafar fyrst og fremst af því að innheimta virðisaukaskatts hefur ekki gengið eftir svo sem fjárlög fyrra árs gerðu ráð fyrir.
    Í skýrslunni um ríkisfjármál fyrir árið 1991 á þskj. 463 er reyndar reynt að gera nokkra grein fyrir því hvernig á þessu stendur, hverjar eru orsakirnar. En það sem kemur mér undarlegast fyrir sjónir er, eins og ég nefndi reyndar áðan, að innflutningur hefur aukist, innflutnings- og vörugjöld hafa farið umfram áætlun upp á 742 millj. kr. á sama tíma og virðisaukaskatturinn dregst saman um 2,6 milljarða eða 2.596 millj. eins og segir í töflu í þeirri skýrslu. Og þó að reynt sé að leita hér svara við þessari misvísun, þá finnst mér að við þurfum að velta því fyrir okkur. Það er kannski ekki endilega að það séu spurningar til hæstv. ráðherra varðandi málið heldur velta því fyrir okkur hvernig á þessu stendur og hvað er til ráða. Í frv. er bent á það að innskatturinn eða frádráttarbær virðisaukaskattur af aðföngum hafi hækkað hlutfallslega miklu meira en gert var ráð fyrir. Er þar um að ræða einhver undanbrögð? Eru menn þar að finna nýjar leiðir sem kannski kunna að vera löglegar --- og vonandi að menn séu ekki að fara hér fram með ólöglegum hætti að ná undan virðisaukaskatti --- en það sé þá um að ræða einhverjar þær smugur eða þá þætti í lögum um virðisaukaskatt sem nauðsynlegt er að fylla upp í? Hefur hæstv. ráðherra velt því fyrir sér hvað þar kunni að vera til ráða? Það er t.d. nefnt í athugasemdum með frv. að það sé verulega aukin fjárfesting í bílum, í vélum, í tækjum upp á 24% milli ára og þetta muni þá líklega vera búnaður sem viðkomandi fyrirtæki hafi getað dregið sem innskatt frá veltu sinni eða útskattinum og hefur þá hækkað mikið meira heldur en veltan hefur þó í raun gert. Eru menn hér að koma inn undir þennan lið í útgjöldum fyrirtækja sinna einhverjum þeim þáttum sem e.t.v. eiga þar ekki heima ef grannt væri skoðað og lögin þyrftu að taka ítarlegar á hvað er frádráttarbært?
    Í öðru lagi er nefnt að áætlað hafi verið fyrir beinum endurgreiðslum t.d. vegna hráefniskaupa fiskvinnslu, aðkeyptrar þjónustu sveitarfélaga og vinnu við íbúðarhúsnæði og allt virðist þetta hafa farið fram úr. Hversu mikið hefur það farið fram úr áætlunum? Í töflu á bls. 19 í þessari skýrslu er greint frá því að beinar endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna hráefniskaupa í fiskvinnslu hafi numið 5,7 milljörðum kr. Vinna við nýbyggingu og viðhald íbúðarhúsnæðis 1,4 milljörðum kr. og endurgreiðslur til sveitarfélaga 625 millj. kr. Hversu mikið er þetta umfram það sem áætlanir ráðuneytisins og fjárlaga seinasta árs gerðu ráð fyrir væri fróðlegt að sjá og heyra þá líka hvaða álit hæstv. ráðherra hefur í þessu efni á því hvernig þar sé hægt að bregðast við ef um óeðlilega þróun er að ræða.
    Að lokum er svo nefnt og áréttað það sem ég hef verið að velta hér fyrir mér að það sé undarlegt að samdráttur skuli vera svo mikill í innheimtu virðisaukaskattsins á sama tíma og innlend eftirspurn hefur þó aukst, veltan aukist og tekjur af innflutningi hafa farið vaxandi.
    Þetta voru, virðulegi forseti, nokkrar spurningar sem ég vildi velta upp í umræðunni og fá viðbrögð hæstv. ráðherra við. Auðvitað væri hægt að hafa hér uppi allnokkru lengra mál og ýmis fleiri atriði sem nauðsynlegt hefði verið að taka inn í umræðuna, ekki síst vegna þess hvernig hæstv. fjmrh. hóf sína umræðu og ræddi ítarlega um framkvæmd fjárlaga á seinasta ári sem ég hélt þó að væri ekki sérstaklega hér til umræðu. En tímans vegna ætla ég ekki að hafa mál mitt lengra og þakka forseta fyrir það umburðarlyndi sem hann hefur sýnt mér að gefa mér kost á tala hér nokkrar mínútur fram yfir áætlaðan fundartíma að þessu sinni.