Fjáraukalög 1991

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 20:43:00 (5273)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að við skulum nú ræða fjáraukalög á sama ári og heimildir þarf að veita en ekki fjáraukalög síðustu áratuga eins og hér tíðkaðist áður fyrr og ber að þakka hæstv. fyrrv. fjmrh. fyrir að taka upp þann sið að afgreiða fjáraukalög jafnóðum. En þó er það harmsefni að hér skuli þurfa að vera að fjalla um fjáraukalög öðru sinni fyrir árið 1991 sem sýnir að enn er ekki nægileg stjórn á framkvæmd fjárlaga og kemur þar sjálfsagt ýmislegt til og ekki ber að hvítþvo hv. fjárln. af því að gera þá ekki raunhæf fjárlög. En til þess að ná einhverri stjórn á framkvæmd fjárlaga er auðvitað nauðsynlegt að reynt sé að halda sig innan við þær heimildir sem fjárln. hefur látið Alþingi lögfesta.
    En það vekur ýmsar spurningar hvernig á þessari útkomu stendur að vanta skuli 12,5 milljarða til þess að endar nái saman. Þegar hefur komið fram að enn eru óinnheimtir 3 milljarðar í útistandandi staðgreiðslusköttum og ljóst er að mikið vantar á að virðisaukaskattur hafi innheimst eins og til stóð og raunar ekki fundin nein skýring á því --- og vildi ég nú að hæstv. fjmrh. hlýddi á mál mitt. Sýnist mér hann hafa sest í hliðarsal og ætti að geta heyrt til mín. --- Hér hafa bæði verið lagðar fram fyrirspurnir á hinu háa Alþingi og margsinnis verið að því spurt hér í ræðustól, hvernig það megi vera að virðisaukaskattur af innfluttum vörum skili sér ekki. Ég held að þar þurfi fjmrn. að leggja mikla vinnu af mörkum til þess að það skýrist hvernig það megi vera að þessar tölur komi ekki heim og saman. Það er auðvitað alveg ljóst að einhvern veginn tekst fólki að fara fram hjá lögum sem um virðisaukaskatt gilda. Það er engin önnur skýring til á því. Sýnast menn harla fljótir að tileinka sér kúnstir sem koma þeim fram hjá gildandi lögum.
    En þegar litið er á útkomu ársins 1991 er ýmislegt sem stingur í augu. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta, í inngangi að frv. því til fjáraukalaga sem við erum nú að fjalla um:
    ,,Í þeirri þjóðhagsspá sem lögð var til grundvallar fjárlögum ársins 1991 var gert ráð fyrir að samdráttarskeiði undanfarinna þriggja ára væri um það bil að ljúka og að hagvöxtur tæki að glæðast á nýjan leik. Þannig var gert ráð fyrir að þjóðartekjur myndu aukast um tæplega 2% árið 1991, en þær höfðu dregist saman um 3,5% á árunum 1988--1990.`` --- Ég vek þá athygli á því að fjárlagahalli var þó mun minni á þeim árum þegar samdrátturinn var miklu meiri. --- Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Spáin um auknar þjóðartekjur var byggð á forsendu um aukna framleiðslu sjávarafurða og hækkun afurðaverðs á erlendum mörkuðum. Jafnframt var gert ráð fyrir að innlendri eftirspurn yrði haldið í skefjum, jafnt útgjöldum opinberra aðila og fyrirtækja sem heimila.`` --- En síðan segir:
    ,,Niðurstaðan er því sú að landsframleiðsla er talin hafa aukist heldur minna en gert var ráð fyrir í fjárlögum, eða um rúmlega 1%, samanborið við 1,5% í forsendum fjárlaga. Þjóðartekjur jukust hins vegar meira vegna batnandi viðskiptakjara eða um rúmlega 2,5% samanborið við tæplega 2% í fjárlögum. Þrátt fyrir meiri aukningu þjóðartekna en búist var við versnaði skuldastaða þjóðarbúsins erlendis enn frekar vegna vaxandi viðskiptahalla.``
    Lái mér hver sem vill. Ég kem þessu ekki heim og saman. Ég skil þetta ekki. Mér finnst óeðlilegt með öllu að útkoman sé svo bágborin sem hún er þar sem samdráttur varð alls ekki slíkur sem spáð hafði verið og þrátt fyrir minni afla jókst verðmæti aflans að sama skapi. Eftir stendur að innheimtar tekjur ríkissjóðs námu tæpum 100 milljörðum kr. og útgjöld námu 112,5 milljörðum kr.
    Síðan getum við spurt sjálf okkur hvort þetta sé í raun og veru allur sannleikurinn. Ég held nefnilega að svo sé ekki og mál til komið að við förum að líta á aðrar tölur.
    Á bls. 16 er tafla um lánahreyfingar ríkissjóðs. Þar segir: Hrein lánsfjárþörf ríkisins var 14 milljarðar 648 milljónir. Afborganir af teknum lánum 7 milljarðar 623 milljónir. Verg lánsfjárþörf ríkissjóðs var því 22 milljarðar 271 milljón og að mínu viti var það hallinn á þjóðarbúinu, hinn raunverulegi. Ég held nefnilega að við séum að blekkja sjálf okkur og höfum gert um langt skeið með því að líta einungis á þennan svokallaða viðskiptahalla.
    En ástæðan fyrir því að ég kom hér í ræðustól er fyrst og fremst sú að ég tel að þetta fjáraukalagafrv. sé ekki mjög marktækt plagg og ástæðan fyrir því er sú að í morgun komu embættismenn heilbrrn. á fund hv. fjárln. og kynntu tillögur um útdeilingu á fé til sjúkrahúskerfisins í Reykjavík. --- Og hvað er lagt fyrir hv. þm. þar, án allra laga sem ég tel að þurfi að setja til þess að annað eins og það eigi sér stað? Þar er farið fram á, eins og hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Til viðbótar hefur ráðherra tekið ákvörðun um ráðstöfun úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna aukinna hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu og stofnframkvæmdir því fylgjandi.`` Og það er til St. Jósefsspítala, Landakoti 35 millj., og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 9 millj. og það er skýrt tekið fram að þessar 44 millj. eigi að fara í rekstur. Það er verið að færa til úr stofnkostnaði peninga í rekstur. Aðspurðir staðfestu embættismenn að þarna væri ekki um neinar breytingar vegna breyttrar notkunar á rými að ræða heldur er verið að finna rekstrarfé til sjúkrahúskerfisins. Þegar búið er að láta eins og látið hefur verið við að eyðileggja sjúkrahúskerfið í Reykjavík á þessum vetri, þá er verið að bjarga því sem bjargað verður með því að læðast í Framkvæmdasjóð aldraðra. Menn virðast í fyrsta lagi gleyma því að honum stýrir sérstök stjórn þannig að fjárln. hefur auðvitað ekkert vald á þeim sjóði. En í öðru lagi er hér um að ræða svo gróft brot á þeim venjum sem verið hafa að færa úr stofnkostnaði peninga til reksturs að ég tel að við getum ekki afgreitt þetta fjáraukalagafrv. fyrr en við höfum fengið inn í það frv. leyfi til að nýta þessa peninga á þennan hátt. Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir hversu langt er hægt að seilast.
    Það er svo til umhugsunar um hvernig farið er með fé í þessu landi að á sama tíma og hver hæðin eftir aðra stendur auð á Borgarspítalanum, húsrými sem ætlað var fyrir aldraða, þá er verið að troða öldruðu fólki inn á Landakotsspítala sem hefur margra ára hefð fyrir ákveðinni þjónustu og enginn hafði nokkru sinni kvartað yfir henni, þangað til einhver skelfileg þróunarstofnun innan ríkisspítalanna hófst handa um að eyðileggja sjúkrahúskerfið í Reykjavík. Það er auðvitað alveg ljóst að hæstv. heilbrrh. er í standandi vandræðum með þetta mál allt. Það er alveg ljóst og þarf sérstakt hugmyndaflug til að halda að það sé hægt að sameina bráðaþjónustu í borginni, setja hana alla inn í eitt sjúkrahús án þess að það kosti fé. Hver manneskja með nokkurn veginn heilbrigða skynsemi hlýtur að geta sagt sér það sjálf. Og hvað er svo verið að bera á borð fyrir okkur nú? Borgarspítalinn, nýjar bráðavaktir 200 millj. kr., stendur hér. Um þetta átti fjárln. að taka ákvörðun í morgun. Ég tek það fram að við óskuðum auðvitað eftir að fá á okkar fund forstöðumenn St. Jósefsspítala, Borgarspítala og ríkisspítalanna því að hér er unnið þannig að það veit enginn hvað hann er að gera lengur. Hér er verið að ráðstafa 359 millj. kr. sem skulu skiptast milli St. Jósefsspítala, ríkisspítalanna og Borgarspítalans til þess að bjarga því sem bjargað verður úr því sem nú þegar er búið að eyðileggja.
    En meðferð fjármuna er um margt sérkennileg og minnst af því vita hv. þm. um. Uppi við Reykjalund er búið að byggja hús fyrir 6 eða í hæsta lagi 7 sjúklinga sem eru mjög heilaskaðaðir og hefur lengi verið sár þörf á slíku húsnæði. Áhugamenn söfnuðu til þessa verks 27 millj. og maður gæti haldið að það hefði nægt til að byggja þetta hús. Því fer nú aldeilis fjarri. 30 millj. hafa farið til viðbótar úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og eitthvert fé til viðbótar því þannig að húsið stendur nú í milli 70 og 80 millj. Þarna, eins og ég segi, eiga að vera 6--7 sjúklingar. Til að kóróna þessa framkvæmd er svo það að nú stendur þetta hús autt vegna þess að það er ekki til eyrir í rekstur þess. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað eigum við lengi að horfa upp á þennan taumlausa fjáraustur? Nægir að nefna það sem við höfum hér fyrir augunum, perlur og ráðhús, þar sem allar fjárhagsáætlanir fara milljarða fram úr áætlun. Í þessu tilviki er ekki hægt að byggja tiltölulega lítið hús til að veita þjónustu þeim samborgurum okkar sem kannski allra bágast eiga fyrir minna en milli 70 og 80 millj. Ekki króna til að reka það. Og hvað liggur nú fyrir Framkvæmdasjóði fatlaðra? Umsókn frá hinum sparsama hæstv. heilbrrh. þar sem hann biður um nýjar 30 millj. því nú ætlar hann að byrja á nýju húsi uppi við Grensásdeild. Maður spyr sjálfan sig: Væri ekki nær að nýta það húsnæði sem stendur autt heldur en að ólmast svona

áfram án nokkurrar fyrirhyggju?
    Þetta er svo sem ekkert einsdæmi. Mikið af þessum framkvæmdum í þágu fatlaðra t.d. hafa farið úr öllum böndum og nægir að nefna eitt slíkt sambýli á Akranesi þar sem er glæsihús, og ekki skal ég lasta að slík hús séu vel úr garði gerð. Þar áttu upphaflega að vera einir sjö sjúklingar, þeir hafa sjaldnast verið nema fjórir. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Það hefði kannski verið vitlegra að láta það fólk, sem hefur unnið við þessi mál um árabil, setjast niður og leita leiða til sparnaðar í kerfinu án þess að þjónustan skertist í nokkru, heldur en að ösla inn í sjúkrahúskerfið í Reykjavík sem þjónar vitaskuld öllu landinu, leggja þar allt í rúst, margra áratuga þekkingu, sem stendur meira og minna ónotuð vegna þess að sjúklingarnir eru horfnir eitthvert annað og stöðugildi ekki fyrir hendi fyrir þá sem ráku mjög svo sérhæfða þjónustu. Síðan stendur eitthvert ringlað ráðuneytisfólk og reynir að finna peninga til þess að bjarga því sem bjargað verður og dettur í hug að ráðast inn í Framkvæmdasjóð aldraðra til þess að fara að reka sjúkrahúsin í Reykjavík.
    Mér er bara spurn: Veit hæstv. félmrh. þetta? Ég stórefast um það. Hún hefur þá tekið upp nýja siði ef hún sættir sig við vinnubrögð af þessu tagi. En það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, það er fullkomin tilviljun að ég veit þetta. Það geta verið svona mál á hverju strái þess vegna. Það bara vill svo til að ég frétti af þessu fyrir hreina tilviljun. Og ég spyr: Er mikið af svona framkvæmdum í gangi í landinu? --- Spyr sá sem ekki veit og ég hygg að því miður sé þekking hv. þm. á svona fjáraustri afar takmörkuð.
    Ég vil minna hv. þm. á að fyrir nokkrum árum, í ráðherratíð hæstv. þáv. heilbrrh. Svavars Gestssonar, var mikið neyðarástand hér í bráðaþjónustu fyrir geðsjúka í borginni. Hvernig var það leyst? Það var leyst með því að setja nefnd til starfa, sjö manneskjur, sem nauðaþekktu þennan málaflokk. Það tók nokkrar vikur að semja milli sjúkrahúsanna hvernig þessu yrði best fyrir komið. Það þurfti ekki að byggja neitt hús. Það þurfti ekki að fjölga starfsliði. Þetta var einfaldlega leyst með hagræðingu. Síðan hefur enginn kvartað yfir að þessi þjónusta væri ekki í lagi. Þannig á auðvitað að vinna að hagræðingu jafnt í heilbrigðiskerfinu sem á öðrum stöðum.
    Ég skal, hæstv. forseti, reyna að stytta mál mitt, því ég vil mjög gjarnan stuðla að því að hv. þm. sem hér þurfa að tala fyrir málum, því miður að kvöldi til, þar sem ekki er von til að þau mál veki þá athygli sem þau eiga skilið, komist að.
    En ég vil spyrja hvaðan það plagg er komið sem ég stend hér með í höndunum sem heitir ,,Alþingi 1985--1991``. Á fyrstu síðu þess er tafla sem heitir ,,Hækkun á almennum rekstri`` og þingfararkaupið 1985--1991 þar sem almennur rekstur sýnist fara hér beina leið upp á við. Ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, að mótmæla þessu mjög harðlega og biðja hæstv. forseta að kanna með eigin augum að í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1990 um framkvæmd fjárlaga 1990 stendur skýrum stöfum að rekstur Alþingis hafi lækkað að raungildi árið 1989 og 1990 að 2,9%. Hver sem þessa töflu hefur búið til er hreinlega að villa hv. Alþingi sýn. Þetta er ekki svona. Og ég vil mjög svo mótmæla því að svona skjöl skuli lögð fram. Því miður hef ég ekki hugmynd hvernig ég hef fengið þetta. (Gripið fram í.) Þetta hlýtur að hafa verið lagt fram í fjárln., þar mun ég alla vega hafa fengið þetta, en ég frábið mér að fá þær upplýsingar sem ég veit af tilviljun að eru rangar og bið ég menn einfaldlega að kanna það í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga það ár.
    En endir máls míns skal vera sá, hæstv. forseti, að ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari því hvort hann telji að þessi útdeiling á fé til heilbrigðiskerfisins í Reykjavík standist lög og hvort ekki sé ástæða til að líta á það áður en þessi fjáraukalög verða send til afgreiðslu.