Fjáraukalög 1991

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 21:37:00 (5275)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð til upplýsingar fyrir hæstv. ráðherra. Hann sagði hér áðan að breyting hefði verið gerð á lögum um málefni aldraðra í þá veru að leyfilegt væri að taka fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs. Þetta er að því leyti rétt að það var gerð breyting á lögunum um málefni aldraðra 26. febr. 1991, en sú breyting sem hæstv. ráðherra vitnar í hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, en þar er talað um hvert sé hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra:
    ,,4. Að veita tímabundið rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða sem breyta eða hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst.``
    Þessi breyting var gerð til þess að tryggja fé stofnun fyrir aldraða sem risin væri en hæfi síðan rekstur á einhverju ótilgreindu tímabili á fjárlagaárinu þannig að stofnunin þyrfti ekki að standa auð. En ég vil vekja athygli á því að St. Jósefsspítali á Landakoti er ekki stofnun fyrir aldraða. Þar eru fjölmargar aðrar deildir og önnur starfsemi þannig að þetta getur í engu tilviki átt við um það sem hér er farið fram á af hálfu hæstv. heilbrrh., enda man ég mætavel hvernig þessi breyting var hugsuð. Og síðan er nú ekki nóg með það að beðið sé um 35 millj. kr. í rekstur til Landakots heldur einnig til framkvæmda 15 millj. en það er sjálfsagt samkvæmt þeirri breytingu að veita styrki, en það er liður 2 í sömu umræddri grein, til ,,að veita styrki til breytinga, endurbóta og viðhalds á stofnunum aldraðra sem eru í rekstri við gildistöku þessara laga``. Þetta á jafnlítið við Landakot og það sem ég rakti hér varðandi rekstrarhliðina. Hér er því ekki verið að fara að neinum lögum heldur er verið að leita að fé þegar í það óefni er komið að það verður að bjarga rekstri sjúkrahúsanna í Reykjavík svo að starfsemi heilu deildanna leggist ekki með öllu af.
    Þetta vildi ég nú segja hv. þingheimi og það liggur við að við stjórnarandstæðingar ávörpum ekki aðeins hæstv. forseta heldur hv. útvörð Sjálfstfl. á Alþingi, hv. 4. þm. Reykv., sem virðist vera eini þingmaðurinn sem hefur nokkurn áhuga á fjáraukalögum hæstv. fjmrh. og þykir mér nú ráðherrann ekki eiga sér marga aðdáendur í þeim flokki. (Gripið fram í.)
    Aðeins að lokum svo ítrekað sé að reynt sé að halda sig við raunhæfa fjárlagagerð. Það er t.d. beðið um 16 millj. fyrir hið háa Alþingi. Á sama tíma er hinu háa Alþingi gert að skera niður þannig að hv. þm. hafa nú fengið bréf þar sem þeim er hótað verri þjónustu, lokun símakerfis og öðru slíku, sem er sennilega óheyrt í nokkru þjóðþingi, en þetta er gert í nafni sparnaðar. Ég hygg að þrátt fyrir þennan sparnað gæti svo farið að hið háa Alþingi yrði að biðja um fé á fjáraukalögum sem kunna að koma fram árið 1992 en þetta er auðvitað út í hött og með öllu fráleitt að framkvæmdarvaldið sé að skipa Alþingi fyrir um sparnað. Hið háa Alþingi veit sjálft hvers það þarf með. Ef það hefur ekki vitsmuni til að fara með fé eins og sæmir þeirri stofnun, þá hefur það ekki hæfileika til þess að gera það sem það á að gera. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að mótmæla því að verið sé að skipa forsætisnefnd hins háa Alþingis að skera niður í starfsemi þingsins. Ég held að þess gerist ekki nokkur þörf. Hún er algjörlega í lágmarki.