Aukatekjur ríkissjóðs

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 22:06:00 (5279)


     Jón Helgason :

    Hæstv. forseti. Það var fróðlegt að heyra skilgreiningar hæstv. fjmrh. á sköttum og gjöldum en þá rifjaðist upp fyrir mér breyting sem var gerð í vetur á gjöldum vegna ökuprófa þar sem í skýringum fjárlagafrv. fyrir árið 1992 var sagt að það ætti að hækka gjöld fyrir ökupróf til þess að standa í vaxandi mæli undir kostnaði Umferðarráðs, þannig að það væri aðeins hluti af prófgjaldinu sem rynni til ríkisins vegna kostnaðar ríkisins af próftökunni en hluti skyldi renna til þess að greiða hina almennu starfsemi Umferðarráðs sem greidd hefur verið úr ríkissjóði.
    Ég áttaði mig ekki almennilega á því hvort þessi nýja stefna hæstv. fjmrh. í verki fellur undir þessa skilgreiningu sem hann var að gefa okkur hér áðan þó að sjálfsagt sé rétt að það sé ótvíræð lagaheimild til þess að gera þetta. En þá virðist mér að þetta stangist á við þá skilgreiningu sem hæstv. fjmrh. var að gefa um að ríkisstjórnin vildi láta þá sem njóta þjónustu greiða fyrir hana. Ég held að það geti ekki verið í þessu tilviki því að það er að sjálfsögðu aðeins örlítið brot af þjónustu Umferðarráðs sem ætti að falla í hlut þeirra 17 ára unglinga sem taka prófið.