Aukatekjur ríkissjóðs

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 22:09:00 (5280)



     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka undirtektir þeirra sem töluðu hér á undan. Ég tel að það þurfi að setja af stað athugun á þessum málum eins og ég sagði áðan og mér finnst að það ætti að vera hlutverk þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr sem hefur lagt áherslu á þessi þjónustugjöld. Ég er ekki sammála henni um að leggja ríka áherslu á þjónustugjöldin með sama hætti og hún gerir en ég tel að það sé hennar hlutverk vegna þessarar áherslu að endurskoða þessa hluti sem hér er verið að tala um. Mér finnst að það megi kannski segja, eins og hæstv. fjmrh. benti á hér áðan, í sambandi við tollskýrsluna sem ég nefndi, að menn þurfi ekki að notfæra sér þá þjónustu vegna þess að það er hægt að fá hana annars staðar. Það er ekki málið, heldur hitt að ef ríkið býður upp á einhverja þjónustu þá á hún að vera verðlögð með eðlilegum hætti. Þá á ekki að innheimta hærra gjald en það kostar sem gert er og menn verða að kalla hlutina réttum nöfnum. Ég er sannarlega sammála hæstv. fjmrh. um það að stimpilgjöldin eru auðvitað skattur og verða ekki kölluð annað en skattur. En við ættum þá að geta orðið sammála um að það sé skattur sem menn hljóti að verða að endurskoða vegna þess að skattstofninn er óeðlilegur. Við þurfum að gera meiri kröfur til þeirrar siðfræði sem er á bak við ákvörðun um það að menn skuli borga skatta, heldur en gert er í dag. Það er alveg fráleitt að skuldugt fólk sem þarf að þinglýsa lánum, eða ungt fólk sem er að koma þaki yfir höfuðið á sér verði út á það að skattstofni, eins og ég var að segja hér áðan. Þess vegna þarf auðvitað að endurskoða þessa hluti.
    Hæstv. fjmrh. spurði hvað röntgenmyndin kostaði þegar hann handarbraut sig. Það er einmitt það sem ég var að segja hér áðan að þurfi að gerast, að þegar menn fá reikning frá heilsugæslustöð eða öðrum fyrirtækjum ríkisins þá sé gerð nákvæmlega grein fyrir því á þeim reikningi hvað verið er að borga. Hvað það er stór hluti af kostnaðinum sem menn borga þannig að fólk viti hvað það er að borga. Ég er mjög sammála því að þannig verður það auðvitað að vera. En það þýðir ekki að ég sé sammála hæstv. ríkisstjórn um að það eigi að leggja áherslu á að innheimta sem allra mest af þjónustugjöldum.
    Hæstv. ráðherra nefndi hér áðan afrek forvera síns að leggja á eftir efnum og ástæðum, eins og hann kallaði, og sem hefði af umboðsmanni Alþingis verið bannfært. Það er rétt að þarna voru menn við sama heygarðshornið að líta þannig á að það væri hægt að leggja gjöld á menn án þess að á bak við það væri eitthvert mat á því hvort um væri að ræða skattstofn eða ekki. Öllu ruglað saman, þjónustugjöldum og sköttum. Í raun og veru eru skattar kallaðir gjöld. Þessu þurfa menn að breyta, menn þurfa að gefa sér tíma til þess að fara í gegnum þessi mál með það fyrir augum að ríkið bjóði ekki upp á þessi vinnubrögð. Almenningur í landinu verður fyrir þessu. Ég hef hitt marga sem eru ævareiðir yfir því að hafa þurft að borga reikninga sem þeim finnst ósanngjarnir. Menn eru að borga háa reikninga fyrir einhvern bíl sem þeir eiga, t.d. þungaskatt af bíl sem aldrei fer á götuna,

menn eru reiðir vegna þess að þeir fá enga þjónustu fyrir það sem þeir eru að borga. Það er hægt að nefna fjölmörg önnur dæmi um gjöld sem ekki er veitt þjónusta fyrir.
    Ég vona það, sérstaklega vegna þeirra undirtekta sem hæstv. fjmrh. kom með hér áðan við þessari till., að hann vindi sér í það að endurskoða þessa hluti með það fyrir augum að þetta kerfi verði sanngjarnt og að menn fái þá þjónustu sem innheimt er gjald fyrir og það verði þá kallað réttu nafni, það verði kallað skattar þegar um er að ræða skatta og að menn leggi það á sig í hvert skipti sem nýir skattar eru teknir upp að ræða alvarlega um skattstofninn, að hann sé eðlilega valinn, það verði ekki tilefni til innheimtu skatts þó að menn þurfi að leita á náðir ríkisins til að fá einhvers konar lítilvæga þjónustu.