Skattlagning fjármagnstekna

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 22:35:00 (5283)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál., sem ber þess nú merki að hún er nokkuð við aldur, því að hún er lögð fram áður en sú skýrsla sem vitnað hefur verið til var samin og lögð fram til alþingismanna.
    Það er rétt sem komið hefur fram hjá hv. flm. till. að nokkurt starf hafði farið fram á vegum fjmrn. í þessu máli hjá forvera mínum. En ég vil þó láta þess getið að margt var óunnið og nú fyrst þegar þessi áfangaskýrsla liggur fyrir má segja að kominn sé góður umræðugrundvöllur sem hægt er að byggja ákvarðanir á.
    Hv. þm. spurði mig nokkurra spurninga og skal ég reyna að veita svör við þeim. Hann spurði hvort frv. verði borið fram það snemma, og þá væntanlega stjfrv., að tæknilega sé mögulegt að afgreiða það fyrir þinglok. Það er alveg augljóst --- sem svar við þessari spurningu --- að frv. kemur ekki fram fyrir 15. apríl.
    Áfangaskýrslan er auðvitað álit nefndarinnar. Stjórnarflokkarnir hafa ekki endanlega komið sér niður á eina tillögu. Áfram er hins vegar stefnt að því að hægt sé að leggja fram frv. á yfirstandandi þingi. Ég get ekkert um það sagt á þessari stundu hvort það kemur það snemma fram að hægt verði að afgreiða málið og m.a.s. get ég ekki fullyrt að frv. komi fram á þinginu því það er ekki tilbúið. Ég vil þó geta þess að nefndin sem vann þessa skýrslu vinnur nú að gerð frv. á grundvelli skýrslunnar en það frv. hlýtur síðan að taka breytingum þegar stjórnarflokkarnir hafa fjallað um það. Að þessu verki vinna tveir menn af hálfu hvors stjórnarflokks og á þessari stundu er ekki hægt að segja meira um þessa spurningu.
    Önnur spurningin var hvað þyrfti að líða langur tími frá því að lögin yrðu samþykkt og þar til vaxtatekjur gætu orðið skattskyldar. Ég held að þessari spurningu sé nokkuð vandsvarað en sé miðað við hugmyndir sem koma fram í þessari skýrslu þurfa ekki að líða margir mánuðir, enda er þar gert ráð fyrir að skattar séu greiddir eftir á, ári eftir að skattskyldan tekur gildi, þ.e. sé miðað við það að skattskyldan taki gildi um leið og lögin verða virk þótt greiðslur komi ekki fram fyrr en ári síðar.
    Þá er spurt hvort ekki sé ætlunin að lögfesta sjálfvirka upplýsingaskyldu lánastofnana til að auðvelda álagningu skattsins og hvað þurfi þá að ætla lánastofnunum langan undirbúningstíma, t.d. varðandi tölvukerfi. Ég vil geta þess að í skýrslunni á bls. 6, 13. lið, er sagt frá því að lögfesting upplýsingaskyldunnar sé að mati nefndarinnar ófrávíkjanleg forsenda þess að skattlagning eignatekna sé framkvæmanleg í þeim dúr sem þar um getur. Mér er kunnugt um það að nefndin hefur hagað sínum störfum þannig að við það er miðað að innlánsstofnanir og aðrar lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki og önnur fyrirtæki, sem þyrftu að gefa skattyfirvöldum upplýsingar, hafi yfir að ráða þeim tækjabúnaði sem þarf og við það er miðað að ekki þurfi að leggja í mikinn kostnað til þess að kalla fram þessar upplýsingar. Þess vegna ætti að vera hægt að gera slíkt með tiltölulega stuttum fyrirvara. Þó er ég sammála því sem fram hefur komið, að það liggur jafnvel meira á að lögfesta þetta eina atriði heldur en aðra þætti í þeirri löggjöf sem við þurfum á að halda því að það þarf að gefa þessum stofnunum nokkurn tíma til þess að undirbúa sig.
    Hvað þurfa skattyfirvöld langan tíma til að undirbúa álagningu skattsins? Ég tel að hann þurfi ekki að vera mjög langur og vil geta þess að ríkisskattstjóri var einn nefndarmanna þannig að skattkerfið hefur þegar fengið allar upplýsingar og fylgst mætavel með þessu máli og við það er miðað að hægt hefði verið að láta slík lög taka gildi strax um næstu áramót.
    Og þá er spurt hvort ekki sé ljóst, verði lögin ekki samþykkt í vor, að skattur verði ekki lagður á fyrr en á árinu 1994 vegna tekna á árinu 1993. Ég tel að jafnvel þótt lögin yrðu samþykkt í vor, sem ég skal nú ekki fullyrða að miklar líkur séu til, kannski minni frekar en meiri, þá er ljóst að ekki stóð til að taka inn tekjur af þessum skatti fyrr en á árinu 1994.
    Ég vil að lokum taka fram, virðulegi forseti, að hugmyndir sem koma fram í skýrslunni eru skoðanir nefndarinnar. Málið er ekki einfalt og ég vil sérstaklega taka fram að við

verðum að gæta þess að ekki dragi úr sparnaði. Hann er okkur hér á landi ákaflega mikilvægur, ekki síst í ljósi þess að við eigum við mikla erfiðleika nú að etja og þurfum að fjármagna ekki eingöngu ríkissjóð heldur enn fremur flestalla starfsemi hér á landi með því fjármagni sem lagt er til hliðar, ekki síst því fjármagni sem einstaklingar leggja til hliðar í frjálsum sparnaði.
    Að allra síðustu vil ég geta þess að stjórnarflokkarnir fóru af stað með þessa vinnu með því hugarfari að um samræmingu væri að ræða milli eignarskatta og eignatekjuskatta og vil geta þess að eignarskattar hér á landi eru mjög háir miðað við eignarskatta annars staðar, enda verður að líta svo á að með eignarsköttum hafi menn fyrst og fremst verið að nálgast þá hugmynd að skattleggja hugsanlegar eða raunverulegar tekjur af eignum. En það sjá allir að það er meira í stíl við það skattkerfi sem við notumst við hér á landi. Að vísu er slíkur samanburður eins og allur samanburður dálítið erfiður vegna þess að það þarf að taka tillit til fríeigna eða frítekjumarks en ekki er nóg að bera saman skatthlutföllin.
    Ég vona, virðulegi forseti, að ég hafi svarað að einhverju leyti þeim fyrirspurnum sem til mín var beint. Mér þykir þessi till. vera ágæt og hún er nokkuð lík þeirri tillögu sem fram kemur frá nefndinni sem sent hefur frá sér áfangaskýrsluna.