Skattlagning fjármagnstekna

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 22:47:00 (5285)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hugmyndin að skattlagningu eignatekna hefur alllengi verið í deiglunni eins og kunnugt er og þarf í sjálfu sér ekki nokkurn að undra. Aðstæðurnar hafa verið þannig hér á landi, eins og fram kom í máli hv. 1. flm. þessarar þáltill., að auðvitað stóðu í sjálfu sér engin efni til þess að taka upp skattlagningu fjármagnstekna meðan raunvextir voru neikvæðir. Hitt kemur auðvitað líka til að þetta mál er afar flókið, það er afar viðkvæmt og það er þannig úr garði gert að til þess þarf að vanda mjög mikið svo að afleiðingarnar verði ekki hinar alvarlegustu. Þetta hygg ég að sé skýringin á því að hæstv. fráfarandi ríkisstjórn gat aldrei komið því í verk að hefja hér skattlagningu fjármagnstekna, þó að ætla hefði mátt að innan þeirrar ríkisstjórnar væru mjög miklir áhugamenn um slíka skattlagningu. A.m.k. töluðu menn á þann veg að það hefði mátt ætla að þar innan borðs störfuðu miklir áhugamenn um fjármagnstekjuskatt.
    Ég vil í þessu sambandi minna á það að sú skýrsla, sem hér var gerð að umtalsefni og kom fram að lokum frá ágætri nefnd sem fráfarandi ríkisstjórn skipaði til að vinna

að undirbúningi þessa máls, leit ekki dagsins ljós í sinni endanlegu mynd fyrr en alllöngu eftir að fráfarandi ríkisstjórn hafði safnast til feðra sinna. Það var því fyrst í tíð núv. ríkisstjórnar að skýrsla nefndar fráfarandi ríkisstjórnar leit dagsins ljós og var í raun og veru orðið fullbúið skjal. Það er svo ekkert óeðlilegt við það að ný ríkisstjórn kjósi að hafa nokkuð aðrar áherslur og velji þann kost að skoða þessi mál út frá sínum sjónarhóli með liðsstyrk sinnar nefndar þegar um er að ræða mál af þessu taginu, sem bæði er í sjálfu sér pólitískt ágreiningsefni og einnig svo flókið og viðurhlutamikið og viðkvæmt, eins og öllum ætti að vera orðið ljóst.
    Ég tel því að í ljósi alls þessa sæti það nokkurri undrun en beri að þakka það hversu vel og hratt núv. ríkisstjórn hefur unnið að þessu máli og að sú skýrsla sem þingmönnum hefur verið kynnt, sem þó er eingöngu áfangaskýrsla og á eftir að vinna nokkuð frekar, er að mínu mati hið merkasta innlegg inn í alla þessa miklu umræðu sem er nauðsynlegur undanfari þess að hér verði tekin upp samræming á skattlagningu eigna og eignatekna.
    Ég vil minna á það að í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar, sem sumum þótti nokkuð knappur, kemur það mjög skýrt fram að talað er um samræmingu á skattlagningu eigna og eignatekna. Það er með öðrum orðum greinilega gefinn sá tónn að ekki sé hugmyndin að efna til stórkostlegrar nýrrar skattlagningar af þessu taginu. Og þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að um leið og skattlagning eignatekna sé tekin upp sé hugað að því að endurskoða um leið skattlagningu á ýmsum eignum, sem í dag bera ekki tekjur en eru hins vegar skattlagðar með ýmsum hætti. Við vitum það að þessi skattlagning hefur komið mjög þungt niður, ekki bara á þessu ríka fólki sem menn eru stundum að vitna til og m.a. hv. 18. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni, heldur líka bara á mjög venjulegu rosknu fólki, sem er komið út úr sínu húsnæðisbasli og hefur eignast sitt húsnæði og á það orðið skuldlaust.
    Við þekkjum öll umræðuna sem fór hér fram fyrir nokkrum missirum um hinn svokallaða ekknaskatt, sem auðvitað er einhver hinn ranglátasti skattur sem sögur kunna frá að greina. Vitaskuld er það mjög eðlilegt þegar við erum að tala um að endurskoða skattlagningu eigna og eignatekna að við ráðumst í það að afnema þessa skattlagningu í þeirri mynd sem hún er í dag. Og þess vegna finnst mér það mjög eðlilegt að um leið og þetta mál sé unnið sé mjög hugað að því á hvern hátt hægt sé að leiðrétta það augljósa skattalega misrétti sem felst í núverandi eignarskattslöggjöf.
    Ég ítreka það að ég tel að það sé höfuðmál í þessu sambandi að til þessa verks, skattlagningu eigna og eignatekna, sé vandað mjög mikið. Það þarf alveg sérstaklega að gæta þess að í fyrsta lagi verði þessi skattlagning ekki til þess að fæla fólk frá sparnaði. Við höfum á Íslandi verið að byggja upp traust fólks á því að spara, sýna ráðdeild og leggja fyrir og þetta hefur verið okkur alveg ómetanlegt og er raunar forsenda fyrir því t.d. að hægt sé að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs eða rekstur ríkisins, hins opinbera, á innlendum fjármagnsmörkuðum eins og til að mynda hæstv. fráfarandi fjmrh. lagði ofurkapp á í sinni fjármálapólitík. Og í öðru lagi þarf einnig að gæta þess að þegar þessari breytingu á skattlagningunni verður hrundið í framkvæmd þá megi hún ekki valda, a.m.k. ekki teljandi, vaxtahækkun. Ég hygg að það sé nokkuð gott samkomulag um það í rauninni í þjóðfélaginu þrátt fyrir allt að vaxtastigið verði að vera mjög hóflegt til þess að atvinnulífið fái borið það og þess vegna verðum við auðvitað að gæta þess að sú skattapólitík sem við rekum hvetji fremur til vaxtalækkunar en til þess að vextirnir hækki. Á það hefur verið bent með nokkrum rökum að sú hætta kann að skapast, ef fjármagnsteknaskatturinn er þeim mun hærri, að vextirnir geti hækkað og ég ítreka þess vegna að það er auðvitað gríðarlega þýðingarmikið að þannig sé að þessu máli unnið að það sé komið í veg fyrir að nýr skattstofn af þessu taginu valdi vaxtahækkun.
    Virðulegi forseti. Ég tel að sú till. til þál. sem hér liggur fyrir sé góðra gjalda verð og ég lít á hana sem á vissan hátt táknrænan stuðning við þann ásetning ríkisstjórnarinnar að skattleggja fjármagnstekjur þó ég geri mér grein fyrir því að það muni verða pólitískur ágreiningur um framkvæmd þessa máls. Ég hygg hins vegar að menn séu komnir á

þann stað í umræðunni að um það sé nokkuð bærileg sátt að það sé eðlilegt að taka upp skattalgningu af þessu tagi í einhverri mynd þó að vissulega muni menn greina á um skattprósentuna, skattastigið, framkvæmd skattamálanna, en um það snúast nú stjórnmálin meðal annars.