Skattlagning fjármagnstekna

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 22:54:00 (5286)

     Flm. (Ragnar Arnalds) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. úr þremur stjórnmálaflokkum, sem hafa í máli sínu hér verið mjög jákvæðir gagnvart þessari tillögu. Ég vil líka þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Hann svaraði af fullri hreinskilni þótt auðvitað væru svör hans nokkur vonbrigði. Vonbrigðin stafa af því að hann upplýsti okkur hér um það að stjórnarflokkarnir hefðu enn ekki komið sér saman um hvernig að þessari skattlagningu skyldi staðið. Og hann tjáði okkur það að ekkert væri hægt að fullyrða um það að svo stöddu að nokkurt frv. kæmi fram áður en þingi lyki, þó að hann væri hins vegar að vona það.
    Í máli hv. 3. þm. Vestf. kom fram að skýrsla um þessi efni væri í raun og veru nýframkomin og hefði ekki legið fyrir í tíð fyrri ríkisstjórnar. ( EKG: Í endanlegri mynd.) Já, það er rétt hjá hv. þm. að þessi skýrsla lá ekki fyrir í endanlegri mynd í tíð fyrri stjórnar. En það er rétt að minna á það hér að nefndin skilaði áfangaskýrslu í aprílmánuði 1989 og reyndar aftur haustið 1990 og vann að þessu máli áframhaldandi og mun hafa verið með þrjár atrennur í þá átt að koma frumvörpum á framfæri en það náði ekki fram að ganga eins og kunnugt er og ég hef hér gert grein fyrir vegna andstöðu ráðherra Alþfl. í fyrrv. ríkisstjórn.
    Hv. þm. tók svo til orða að sú till. sem hér lægi fyrir væri jákvæð og mætti í raun og veru segja að hún fæli í sér stuðning við þann ásetning ríkisstjórnarinnar að leggja skatt á fjármagnstekjur. Og það er rétt að það fyrirkomulag sem boðað er í till. er ekki ósvipað því sem kemur fram í tillögu nefndarinnar sem nýlega sendi frá sér álit. Hins vegar er einn reginmunur á afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna annars vegar svo aftur þeirri afstöðu sem fram hefur komið hjá talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar. Hann felst í því að hæstv. ríkisstjórn virðist ganga út frá því sem gefnu að eðlilegast sé að lækka eignarskatta á móti, en við alþýðubandalagsmenn teljum miklu eðlilegra að framkvæmdar séu nauðsynlegar og sanngjarnar leiðréttingar á núverandi tekjuskattskerfi og þá kemur auðvitað margt annað fyrr í hugann en eignarskatturinn.
    Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra og hv. 3. þm. Vestf. að eignarskattar hér á Íslandi eru í hærri kantinum miðað við það sem er í mörgum löndum. Þó eru þeir ekki hæstir hér á Íslandi. Það má finna nokkur Evrópulönd sem hafa hærri eignarskatta. En ég vil vekja á því athygli að eignarskattar hér á Íslandi eru í raun og veru sérstaklega sanngjarnir vegna þess að þar er verið að skattleggja verðbólgugróða liðinna áratuga. Við bjuggum hér við það kerfi mjög lengi að vextir voru verulega neikvæðir og verulegur verðbólgugróði varð til hjá þeirri kynslóð sem hafði aðstöðu til þess að útvega sér lán og byggja sér húsnæði. Þessu er auðvitað þveröfugt farið hjá þeirri kynslóð sem nú stendur í nýbyggingum. Hún nýtur ekki hinna neikvæðu vaxta heldur þvert á móti eru vextirnir nú mjög háir. Og það að halda eignarsköttunum áfram eins og þeir eru er ekkert annað en sanngjörn jöfnunarviðleitni í þjóðfélaginu og kemur upp á móti þeim mikla verðbólgugróða sem kynslóðir á mínum aldri og þaðan af eldri hafa notið á liðnum áratugum. Ég held að okkur, sem eigum einhverjar eignir, sem ríkið hefur getað skattlagt, sé engin vorkunn að greiða þá eignarskatta sem á okkur eru lagðir í dag.
    Hitt er aftur á móti sanngirnismál og réttlætismál að persónuafsláttur sé aukinn þannig að hægt sé að draga úr skattlagninu lægstu tekna. Það er sanngirnis- og réttlætismál að barnabætur séu auknar, og það er að sjálfsögðu mikið nauðsynjamál að dregið sé úr þeim álögum á sjúka, aldraða og námsmenn og ýmsa aðra hópa sem orðið hafa fyrir þungum búsifjum af völdum núverandi ríkisstjórnar á seinustu mánuðum. Þetta er sanngjörn, eðlileg ráðstöfun á tekjum af fjamagnsskatti en hitt ekki, að nota þá til þess að lækka eignarskattana á móti.