Endurgreiðsla virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 23:02:00 (5287)

     Flm. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna. Flm. ásamt mér eru Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Steingrímur J. Sigfússon, Ingibjörg Pálmadóttir, Bryndís Friðgeirsdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að láta endurskoða núgildandi reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna. Endurskoðunin hafi það markmið að einfalda framkvæmdina og lækka þá lágmarksupphæð sem ferðamaður má versla fyrir til þess að eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts.``
    Eins og kemur fram í grg. og fskj. með þáltill. er í gildi reglugerð nr. 50/1989, sem prentuð er með þáltill. sem fskj. I, og 3. gr. þeirrar reglugerðar hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Það er skilyrði endurgreiðslu að kaupandi vörunnar hafi hana með sér af landi brott innan 30 daga frá því að kaup gerðust og framvísi henni ásamt tilskildum endurgreiðslugögnum, sbr. 4. gr., við endurgreiðslufyrirtæki eða eftir atvikum tollyfirvöld við brottför.
    Til þess að endurgreiðsla samkvæmt reglum þessum fáist verður að uppfylla öll eftirtalinna skilyrða:
    a. Kaupandi hafi vöruna á brott með sér úr landi innan mánaðar frá því að kaupin voru gerð.
    b. Kaupverð vörunnar nemi minnst 5.000 kr. með virðisaukaksatti.
    c. Vörunni sé framvísað ásamt tilskildum gögnum við brottför, sbr. 4. og 6. gr.
    Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt af vörum á einum og sama vörureikningi sé kaupverð þeirra samtals 5.000 kr. eða meira ásamt virðisaukaskatti, þó einn eða fleiri munir nái ekki tilskilinni lágmarksfjárhæð.``
    Enn fremur segir í 4. gr. að við sölu skuli útfylla endurgreiðsluávísun þar sem fram komi eftirtaldar upplýsingar:
    a. Nafn og heimilisfang seljanda.
    b. Dagsetning er kaup gerast.
    c. Vörutegund og magn.
    d. Verð vörunnar með virðisaukaskatti.
    e. Fjárhæð sem óskast endurgreidd.
    f. Nafn, heimilisfang og vegabréfsnúmer kaupanda.     Seljandi skal fylla út liði a--e en kaupandi lið f. Frumrit ávísunarinnar á þannig að afhenda kaupanda og búa síðan um vöruna í lokuðum og innsigluðum umbúðum.
    Svo sem hér kemur fram fylgir því töluverð vinna fyrir seljanda vörunnar að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir því að kaupandi eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þessi þáltill. er sett fram til þess að gera þeim sem selja erlendum ferðamönnum vörur í einhverjum mæli léttara um vik. Enginn vafi er á því að það mun verða til söluaukningar og því lítil hætta á að það verði útgjaldaauki fyrir ríkissjóð þó að reglurnar yrðu rýmkaðar og viðmiðunarupphæðin lækkuð. Einnig má benda á hve hér er um lítið hlutfall að ræða af heildarveltu virðisaukaskatts og kemur það raunar fram á fskj. II. Þar er sýnt að samkvæmt tölum frá Fríhöfninni í Keflavík um endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 1991 er hér um að ræða 0,09% af áætluðum tekjum af virðisaukaskatti árið 1991 samkvæmt fjárlögum þessa árs. Og verð ég að leiðrétta það hér með að í till. hefur prentast

0,9% en á að vera 0,09%.
    Í grg. með till. segir einnig, með leyfi forseta:
    Mikil þörf er á að hlúa að hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu. Einn af vaxtarbroddum atvinnulífsins hefur verið í ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta bænda hefur komið þar mikið við sögu og nýst vel til atvinnuaukningar í strjálbýli. Einnig má segja að vakning hafi orðið sérstaklega meðal kvenna í að endurvekja heimilisiðnað og ýmsan smáiðnað, m.a. minjagripagerð. Mjög hefur vantað séríslenska minjagripi til að selja erlendum ferðamönnum. Með aukningu á smáiðnaði til sveita væri bætt úr þeirri þörf.
    Nú eru í gangi námskeið og hópvinna víða um land til að koma á fót smáiðnaði sem gæti verið atvinnuskapandi ef rétt er á málum haldið. Sem dæmi má taka að í Skagafirði hafa verið haldin námskeið til að kenna fólki að sauma skinnskó, skera út spæni úr lambshorni, spinna band o.fl. --- Svipuð framleiðsla er einnig í Þingborg á Suðurlandi. --- Framleiðslan í Skagafirði er ekki hafin en framleiðendur sjá fram á söluerfiðleika ef varan verður of dýr.
    Framleiðsla á handunnum vörum er tímafrek og því hætt við að ekki fáist það verð fyrir vöruna sem kostar að framleiða hana. Sérstaklega á þetta við fyrstu árin meðan verið er að þróa framleiðsluna og markaðssetja hana. Það er því áríðandi að þar komi stjórnvöld að og styðji þessa viðleitni með almennum aðgerðum. Liður í því gæti verið að auðvelda þeim sem kaupa íslenska handunna muni að fá endurgreiddan virðisaukaskatt þegar þeir fara úr landi og lækka þau viðmiðunarmörk sem gilda nú. Hvort tveggja getur haft áhrif til söluaukningar og þarf því ekki að rýra tekjur ríkissjóðs. Endurgreiðsla virðisaukaskatts samkvæmt þessum upplýsingum frá Fríhöfninni í Keflavík sem ég gat um áðan var árið 1991 38.542.400 kr. En heildartekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti samkvæmt fjárlögum ársins 1991 eru áætlaðar 41.550.000.000 kr. --- Reyndar hefur komið fram í umræðum um fjáraukalög hér fyrr í kvöld að þessar tekjur eru nú allmiklu minni.
    Ég lít svo á að hér sé á ferðinni mál sem er hvetjandi fyrir þá sem selja erlendum ferðamönnum vörur í einhverjum mæli og þetta sé hvetjandi til þess að auka þá sölu. Það hlýtur svo aftur að skapa aukna þjónustu í ferðaiðnaði og þar með fleiri störf. Við ættum því að fara að dæmi nágranna okkar í Danmörku og einfalda þessa framkvæmd á endurgreiddum virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna. En í Danmörku er nýbúið að taka upp nýtt kerfi við endurgreiðslu virðisaukaskatts sem flýtir mjög afgreiðslu mála. Þar hefur viðmiðunarupphæðin einnig verið lækkuð úr 600 dönskum kr. í 300 kr. Virðisaukaskatturinn í Danmörku er ekki ósvipaður og hjá okkur, 25%, en hjá okkur reyndar 24,5%. Þarna er því um talsverða upphæð að ræða í heildarvöruverði en ekki um svo mjög háa upphæð að ræða ef miðað er við tekjur af virðisaukaskatti hjá ríkissjóði.
    Að lokum mælist ég til þess að till. verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og efh.- og viðskn.