Staða samkynhneigðs fólks

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 23:37:00 (5293)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það má náttúrlega telja að það sæti nokkurri undrun að þurfa að ræða um mál eins og það að hv. Alþingi lýsi yfir sérstökum vilja sínum til að tryggja að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki eigi sér ekki stað hér á landi, eins og komist er að orði í þessari þáltill. Og enn þá fremur hitt að fimm þingmenn úr jafnmörgum stjórnmálaflokkum hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé nauðsynlegt að fela ríkisstjórninni það að skipa nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi, eins og hér sé um að ræða hóp sem á einhvern hátt ætti að þurfa að hafa sérstöðu í okkar samfélagi umfram það sem hver hópur hefur og eðlilegt er og hver einstaklingur hefur. Þetta undirstrikar þá alvarlegu stöðu sem hópur samkynhneigðs fólks er í í okkar þjóðfélagi og kom svo glögglega fram í máli hv. 1. flm. þessarar þáltill. og hefur komið fram í máli þessa kjarkmikla fólks sem hefur lagt í það að mæta sumpartinn óvinveittu samfélaginu og látið rödd sína heyrast og tekið til máls og krafist réttar síns.
    Að sönnu ríkir hér á landi ýmiss konar lagaleg mismunun gagnvart því fólki sem er samkynhneigt, t.d. varðandi hjúskaparstöðu og fleira er því máli tengist og kom raunar fram í ágætri ræðu hv. 1. flm. þessarar þáltill. Það sem ég tel þó miklu alvarlegra og er kannski erfiðara við að eiga er sú félagslega og menningarlega mismunun sem ríkir í þjóðfélaginu gagnvart því fólki sem er samkynhneigt og hefur orðið til þess að bæla þetta fólk og troða á því og gert stöðu þess miklu örðugri heldur en eðlilegt getur talist. Ég tel að það sé eitt það besta sem gæti hugsanlega fylgt í kjölfarið á slíkri þáltill. sem rædd yrði af einurð og einlægni hér á hv. Alþingi og fengi eðlilega þinglega meðferð, ég tel að eitthvað það heppilegasta sem gæti komið út úr slíku væri það að kannski yrði litið á það sem ákveðinn táknvilja Alþingis, ákveðinn lið í því að brjóta niður þá múra fordóma sem reistir hafa verið í kringum þetta fólk og líf þess. Það er ekki mjög langt síðan menn létu sig hafa það í okkar samfélagi að hafa samkynhneigt fólk opinberlega að háði og spotti og

velja því jafnvel nöfn í samræmi við það. Ég hygg að slíkt sé nú á undanhaldi, a.m.k. í opinberri umræðu, en enn þá er það samt sem áður þannig að margs konar menningarlegir og félagslegir fordómar eru ríkjandi sem nauðsynlegt er að brjóta niður.
    Mér er ekki kunnugt um að til séu nákvæmar eða sannreyndar tölur um hversu margir samkynhneigðir eru hér á landi. Það hafa heyrst tölur eins og 3%, 5%, 10% íbúa landsins en í raun skiptir sú tala kannski ekki öllu máli. Hver sem nú er, þá undirstrikar hún það að hópur samkynhneigðs fólks er talsverður hér á landi og þetta fólk á sinn rétt eins og við öll hin.
    Á síðustu árum hafa farið fram margs konar rannsóknir á samkynhneigð og áhugi vísindamanna á samkynhneigðinni hefur vaxið eðlilega og ég hygg að það sé vottur um það að málstaður þessa fólks er að fá eðlilegri og réttari skilning í okkar samfélagi. Hópur samkynhneigðra hefur orðið sýnilegri í okkar þjóðfélagi en ég minni á að bara það hefur kostað það fólk mikla baráttu, oft og tíðum baráttu við mikla fordóma, baráttu sem hefur falið í sér ákveðið uppgjör við fjölskyldur, nána vini, samstarfsfólk jafnvel, skólafélaga og ég tel ástæðu til þess að virða þessa baráttu.
    Ég er þeirrar skoðunar að það ætti að vera hluti af sóma Alþingis að afgreiða þessa þáltill. og hrinda því í framkvæmd að þegar í stað sé það tryggt að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki eigi sér ekki stað hér á landi. Vitaskuld getum við ekki tryggt það að fullu með lagalegum ramma en vonandi má líta á það að lög sem fela í sér jafnrétti gagnvart því fólki séu líka tilkynning til samfélagsins um að löggjafarsamkoma íslensku þjóðarinnar ætlist til þess að fordómar af þessu taginu séu látnir lönd og leið, heyri fortíðinni til, enda samrýmast þeir ekki upplýstu samfélagi.