Staða samkynhneigðs fólks

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 23:43:00 (5294)


     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þær jákvæðu undirtektir sem þessi tillaga hefur fengið þó að ég hafi náttúrlega ekki átt von á því að þeir þingmenn sem hér töluðu mundu tala gegn henni, enda voru þetta hvort tveggja samflm. mínir að þessari till. Ég vil taka undir það sem sá ræðumaður sem síðast talaði sagði, þ.e. að það ætti auðvitað ekki að vera þörf á því hér á hinu háa Alþingi að flytja tillögur af þessu tagi. Auðvitað ættu málin að vera þannig í samfélagi okkar að allir einstaklingar fengju að njóta sín með sínum sérkennum og sínum einstaklingseinkennum og þá þyrfti ekkert að spekúlera í hlutum eins og kynferði, kynhneigð eða öðru slíku. En því miður er málum ekki þannig háttað í samfélagi okkar, að við höfum útrýmt svo fordómum að till. eins og þessi sé óþörf. Mig langar til þess að benda á það, fyrst ég er nú komin hér upp, að hér á Alþingi í vetur hefur verið fjallað um sjálfsvíg ungmenna. Um þetta mál hefur verið mikil umræða í Bandaríkjunum og m.a. hefur verið á það bent þar að um 1.500 samkynhneigðir einstaklingar á tvítugsaldri fremji sjálfsvíg þar á hverju ári og þetta eru taldar mjög varfærnar tölur. Þetta er hins vegar einn af þeim þáttum sem ekki hefur komið til skoðunar hér í sambandi við sjálfsvíg ungmenna. Nú er ég alls ekki að halda því fram að þar sé eitthvert beint orsakasamhengi á milli eða allt þetta unga fólk sem fremur sjálfsvíg á Íslandi sé samkynhneigðir einstaklingar, síður en svo. En þetta er einn af þeim þáttum sem þarf að skoða í sambandi við þessi mál líka.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég þakka góð viðbrögð og ég vona að þetta sé til marks um það að málið fái skjótan framgang hér á Alþingi og við getum afgreitt það á þessu þingi þannig að ekki þurfi að endurflytja það hér aftur í haust og taka það upp að nýju þá.