Mat á skólastarfi

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 23:57:00 (5296)

     Pétur Bjarnason :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir flest þau sjónarmið sem koma fram í grg. þessarar till. til þál. um mat á skólastarfi. Það er full ástæða til að taka undir flest sem þar kemur fram. Ég vil líka vekja athygli á því sem kemur fram í upphafi grg. með till. þar sem stendur: ,,Þó hefur á síðustu árum verið unnið að greiningu og mati á skólastarfi í grunnskólum með skólaþróunarstarfi í tengslum við aðalnámsskrá og gerð skólanámsskráa.`` Þetta er starf sem hefur eflst mjög og þróast á allra síðustu árum og þarna er unnið að mörgu leyti mjög gott starf, einkum hvað snertir innri greiningu og skoðun á því sem hver skóli er að gera og það er af hinu góða og í anda þessa máls. Enda hefur verið höfð hliðsjón m.a. af því sem getið er um hér aftar, skýrslu OECD um menntastefnu á Íslandi sem kom út árið 1987. Það hefur verið litið til þeirrar lýsingar sem þeir skýrslugjafar gefa á íslensku skólakerfi.
    Ég tel það víst að nefnd sem yrði skipuð eins og hér er gert ráð fyrir mundi þurfa þó nokkurt fjármagn til starfa og allmikinn tíma. Nú er það svo að við höfum yfir að ráða í íslenska skólakerfinu allmörgum sérfræðingum sem hafa reynslu erlendis frá, hafa einmitt lært það að meta skólastarf. Þeir hafa verið við nám í Bandaríkjunum, í Evrópulöndum ýmsum og við höfum yfir að ráða allmikilli og víðtækri þekkingu í þessum efnum. Samt sem áður er það nú svo með þetta eins og annað að það verður að fylgjast með á hverjum tíma. Ég vil því leyfa mér að setja fram hugmynd um að í stað þessarar nefndar yrði kannað hvort ekki væri rétt að fela Kennaraháskólanum eða Rannsóknastofnun uppeldismála eða þeim sameiginlega, enda eru þær stofnanir mjög tengdar, að annast þessa úttekt og gera þessar tillögur. Síðan mætti, þegar þær tillögur væru komnar fram, kalla til fulltrúa þeirra sem hér eru nefndir til þess að ræða þær niðurstöður. Einhvern veginn snýr málið þannig við mér að ég hef tilfinningu fyrir því að það ynnist betur á þennan hátt þar sem í þessum tveimur stofnunum sem ég nefndi, e.t.v. kæmi háskólinn þarna inn líka, er fólk sem hefur sérþekkingu í þessum málum, hefur reynslu og þekkingu til að annast þetta. Síðan mætti, eins og ég sagði áðan, taka þá frumniðurstöðu til skoðunar af viðkomandi aðilum.