Mat á skólastarfi

121. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 00:01:00 (5297)


     Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir undirtektir við till. Hann hefur ákveðnar efasemdir um nefndina, en eins og ég tók fram þegar ég mælti fyrir till. þá var þetta í sjálfu sér ekki tæmandi upptalning eða endilega réttir aðilar sem tilnefndir voru, en við flm. vildum að það kæmu fram einhverjar hugmyndir um það hvernig við vildum að nefndin væri skipuð. Nú verður till. væntanlega vísað til hv. menntmn. og síðan út til umsagnar. Það má vel vera að þar komi hugmyndir jafnvel frá fræðslustjórum, sem eflaust munu fá till. til umsagnar, um það að nefndin skuli öðruvísi skipuð. Ég efast ekki um að það verður farið yfir allar slíkar tillögur því aðalatriðið er að þessi mál verði tekin til gagngerrar athugunar hér á landi eins og hefur verið gert hjá okkar nágrannaþjóðum. Það að lagt er til að skoðuð sé reynsla erlendis frá á þessum málum er kannski fyrst og fremst hugsað til þess að spara tíma, að við séum ekki að móta okkur einhverjar tillögur um hvernig þetta verk skuli unnið án þess að vita a.m.k. hvernig að málum er staðið hjá okkar nágrannaþjóðum því eins og kom fram í mínu máli áðan þá veit ég að t.d. Svíar eru komnir mjög langt með þetta starf og eflaust fleiri.
    Hv. þm. talaði um að það yrði eflaust nokkur kostnaður af þessu og ég geri mér grein fyrir því að allt nefndarstarf kallar á einhvern kostnað, en ég held að það sé engin frágangssök í þessum efnum og ég hugsa þetta ekki þannig að nefndin þurfi að heimsækja allar þessar þjóðir, heldur væri kannski frekar með pósti hægt að fá upplýsingar um hvernig að málum er staðið annars staðar.
    Það er nú víst komið eitthvað fram yfir miðnætti og ég skal viðurkenna það að þegar ég lagði þetta mál fram þá hafði ég ekki hugsað mér það að ég yrði að tala fyrir því á miðnætti í apríl, ( Gripið fram í: Eða að tala í tvo daga.) og það eru að vísu komnar tvær dagsetningar, en samt sem áður leyfi ég mér að vona að tillagan fái jákvæða meðferð í hv. menntmn. og þessi mál verði í framhaldi af því tekin til alvarlegrar athugunar.