Húsnæðisstofnun ríkisins

121. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 00:05:00 (5298)

     Flm. (Guðmundur Þ Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum.
    1. gr. hljóðar svo:
   ,,B-liður 1. mgr. 39. gr. laganna orðist svo:
    b. Félagslegar eignaríbúðir: Sveitarfélög eða verkalýðsfélög.``
    2. gr. hljóðar svo:
    ,,Á eftir 1. mgr. 48. gr. laganna komi ný málsgrein svohljóðandi:
     Verkalýðsfélög, sem byggt hafa samkvæmt lögum þessum, geta með samkomulagi falið húsnæðisnefnd viðkomandi sveitarfélags rekstur og ráðstöfun íbúðanna hætti þau byggingarstarfsemi.``
    Og 3. gr.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Stutt grg. fylgir þessu lagafrv. sem er 396. mál á þskj. 646, og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Innan verkalýðshreyfingarinnar hefur komið fram áhugi meðal aðildarfélaga hennar á að standa fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis. Þrjú verkalýðsfélög í Reykjavík hafa samið drög að samkomulagi um byggingu félagslegra íbúða fyrir félagsmenn sína. Ætlunin var að byggja félagslegar eignaríbúðir eingöngu. Félagsmálaráðuneytið hafnaði drögunum þar sem núgildandi lög gera ráð fyrir að félagasamtök geti eingöngu staðið fyrir byggingu kaupleiguíbúða og leiguíbúða.
     Með breytingunni, sem hér er lögð til, er tryggt að verkalýðsfélög, ein sér eða fleiri saman, eigi sama rétt og sveitarfélög til byggingar félagslegra eignaríbúða fyrir félagsmenn sína að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.``
    Það er skemmst frá því að segja, virðulegi forseti, að þegar lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var breytt síðast og sá möguleiki opnaður að sveitarfélög, félagasamtök og/eða fyrirtæki gætu byggt fyrir félagsmenn sína eða starfsmenn sína eftir atvikum, þá vaknaði sá áhugi hjá þremur verkalýðsfélögum hér í Reykjavík, þ.e. Verkamannafélaginu Dagsbrún, Verkakvennafélaginu Framsókn og Iðju, félagi verksmiðjufólks, að takast á við það verkefni að byggja íbúðir fyrir félagsmenn sína og nota þar hin góðu kjör sem bjóðast í hinu félagslega húsnæðiskerfi.
    Þessi undirbúningur tók að vísu nokkuð langan tíma og fóru fram töluverðar umræður hjá þessum félögum um málið og það er vægt til orða tekið að þær hafi fengið verulega góðar undirtektir. En þegar málinu var áfram haldið og þessi félög voru reyndar búin að gera drög að samningi um byggingu þessara íbúða og höfðu sent hann til staðfestingar ráðuneytisins þá var þeim hafnað með þeim rökum að aðeins væri leyft að byggja, eins og kemur fram í grg., kaupleiguíbúðir og leiguíbúðir. Við nánari athugun laganna var þetta nokkuð augljóst þannig að okkur yfirsást það hvaða möguleikar væru til íbúðarbygginga. Hins vegar er það svo að það form sem núgildandi lög gera ráð fyrir hentar okkur ekki vegna þess að það kallar á verulegan rekstur, sem alls ekki var ætlunin að fara út í. Við ætlum okkur eingöngu að byggja íbúðir fyrir okkar félagsmenn og síðan, eins og þetta lagafrv. gerir ráð fyrir, afhenda þær til ráðstöfunar á einhverju seinna stigi húsnæðisnefnd Reykjavíkur í þessu tilfelli eða húsnæðisnefndum sveitarfélaganna hér í kring, því að þessi stéttarfélög öll ná yfir sveitarfélögin hér í kringum Reykjavík. Það er ekki skynsamlegt þótt við mundum vilja gera átak í þessa veru að fara að koma hér af stað einhverri stofnun við hliðina á húsnæðisnefndinni til langrar framtíðar. Það var aldrei meiningin og reyndar ekki heppilegt að hafa það þannig. Hins vegar er þörfin fyrir slíkar íbúðir mjög brýn. Við vitum að það eru margir um hverja íbúð, það eru u.þ.b. 1.000 umsóknir um 200--300 íbúðir þannig að vandamálið er verulegt og álagið á þessu félagslega íbúðakerfi umtalsvert. Þrátt fyrir það að mikið sé byggt og ágætlega að málum staðið, þá virðist það ekki fullnægja á nokkurn hátt þörfinni.
    Í þessu sambandi má kannski rekja það að þetta hefur lengi verið mikið áhugamál verkalýðshreyfingarinnar, bæði verkalýðshreyfingarinnar sem heildar, einstakra félaga og margra forustumanna hreyfingarinnar sem hafa lagt þessu máli alveg sérstakt lið og sinnt því með sérstökum hætti, og af miklum dugnaði oft á tíðum. Við gætum út af fyrir sig rakið langa sögu, allt frá fyrstu verkamannabústöðunum hér vestur við Hringbraut sem Héðinn heitinn Valdimarsson, þáv. formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, stóð fyrir og reyndar allar götur síðan. Við getum nefnt ártöl eins og 1964 og 1965 þegar verkalýðshreyfingin samdi um byggingu framkvæmdanefndaríbúðanna. Reyndar hefur hreyfingin átt stóran þátt í félagslega íbúðakerfinu allt frá fyrstu tíð og enn þann dag í dag er þetta mikið áhugamál hjá hreyfingunni og mörgum forustumönnum hennar, bæði hér á þessu svæði sem við erum að tala um og reyndar alls staðar hringinn í kringum landið. Þeirri hindrun sem er í lögunum til að við gætum náð þessu fram þarf að breyta til að hægt sé að sinna þessu sem ég hygg að verði öllum til góðs og ætti ekki út af fyrir sig að mæta andstöðu nokkurs manns.
    Þá er kannski eðlilegt að menn spyrji: Hvar á að taka peningana til að gera þetta? Það væri til lítils unnið ef við ætluðum að sækja í þá peninga sem eru til ráðstöfunar í félagslega íbúðakerfinu. Þeir eru af skornum skammti og vantar stórlega aukið fé inn í félagslega íbúðakerfið til þess að það geti sinnt hlutverki sínu með meiri myndarbrag en það gerir í dag. Það væri þess vegna ekki mikið með því ef þeir peningar væru teknir frá þeim opinberu aðilum sem eiga að sinna þessum málum heldur þarf nýtt fjármagn að koma til og það er nú einmitt meiningin hjá okkur að leggja það til að einhverju leyti sjálf. Lífeyrissjóðirnir sömdu um að kaupa bréf af Húsnæðisstofnun ríkisins fyrir 55% af ráðstöfunartekjum sínum og gera það með skilum, að ég hygg, flestir hverjir. Hins vegar eru þó nokkrar upphæðir þar enn þá eftir sem lífeyrissjóðirnir ráðstafa oft til annarra sjóða, atvinnuvegasjóða eða til kaupa á bréfum frá öðrum aðilum. Við höfðum hugsað okkur að leita til þeirra sjóða sem þessi þrjú verkalýðsfélög eiga aðgang að, þ.e. Lífeyrissjóðs verksmiðjufólks og Lífeyrissjóðs Framsóknar og Dagsbrúnar og fara þess á leit að þeir leggi til það fjármagn sem þarf til þess að þetta sé mögulegt.
    Við fyrstu athugun fékk þetta nokkuð góðar undirtektir þannig að við vorum mjög bjartsýn um að þetta gæti gengið upp, að sjálfsögðu með fyrirgreiðslu frá Húsnæðisstofnun í þá veru að nýtt fjármagn sem þar kæmi inn þannig merkt rynni til baka til þessara samtaka og félagsmenn verkalýðsfélaganna sem fengju úthlutaðar íbúðir nytu þeirra kjara sem félagslega íbúðakerfið býður upp á þannig að kostir þess yrðu að fullu nýttir. En eins og hér hefur komið fram skortir ákvæði, þessa viðbót við lögin, að þarna bætist við í einum lið ,,verkalýðsfélög`` og reyndar komi síðan ákvæði í lögunum sem heimili það að félögin geti þá framselt þessu til viðkomandi húsnæðisnefndar til að þetta geti orðið mögulegt.
    Ég þarf ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta. Frv. skýrir sig nokkuð sjálft og ég held að ég hafi dregið aðalatriðin fram. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.