Eftirlit með opinberum framkvæmdum

121. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 00:31:00 (5301)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 1. flm. fyrir að flytja þetta mál hér inn á þingið. Ég tel að það sé full ástæða til að taka á þessum málum. Við sem höfum komið nærri sveitarstjórnarmálum þekkjum að það er nauðsynlegt að hafa gott og virkt eftirlit með framkvæmdum og oft hefur skort á að það hafi verið full samræming í eftirlitinu. Ég held að því miður megi finna fjölmörg dæmi um að það hafi orðið fjárhagsleg stórslys vegna þess

að ekki hefur verið fylgt nógu vel eftir eftirliti með byggingarframkvæmdum og jafnvel ekki síður hinu fjárhagslega eftirliti sem hefur því miður stundum verið í skötulíki þegar um framkvæmdir á vegum hins opinbera hefur verið að ræða. Það er því full ástæða til að skoða þessi mál upp á nýtt. Það sem hv. flm. nefndi hér áðan, að framkvæmdadeild Innkaupastofnunar hafi aldrei komist í það horf sem upphaflega var hugmyndin, bendir auðvitað líka til þess að það sé ekki endilega víst að þessi mál séu í réttu horfi stjórnskipulega séð og þess vegna þarf að fara yfir þau. Mér er kunnugt um það að á sínum tíma varð um þetta töluvert mikil togstreita sem endaði með því að framkvæmdadeildin var aldrei flutt inn í Innkaupastofnun eins og til stóð þannig að þar þarf að skoða málin.
    Það atriði sem flm. nefndi, að það er mikilvægt að þetta eftirlit sé daglegt og að það sé framkvæmt af heimaslóðum, er mjög mikilvægt og ég tel að það þurfi að reyna að leysa það með þeim hætti alls staðar þar sem því verður við komið. Ég vona að þetta mál fái góðan framgang og komist til framkvæmda.