Framkvæmd búvörusamnings

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 10:30:00 (5306)

     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir því í búvörusamningi að niðurfærsla fullvirðisréttar í sauðfjárrækt fari fram í tveimur áföngum, þ.e. haustin 1991 og 1992. Á sl. hausti fór niðurfærsla fullvirðisréttar fyrst og fremst fram með frjálsri sölu til ríkisins en flöt skerðing fullvirðisréttar varð hlutfallslega lítil, sums staðar aðeins fáein prósent og þaðan af minna, jafnvel sums staðar ekki nein flöt skerðing. Nú er hins vegar talið að flöt skerðing fullvirðisréttar geti orðið talsvert miklu meiri og menn hafa verið að nefna tölur upp í 12--15%. Þarf ekki að hafa mörg orð um að það er að sjálfsögðu mjög kvíðvænlegt ef svo fer því að flöt skerðing fullvirðisréttar er mjög óhagkvæm leið til minnkunar fjárstofnsins og mjög sársaukafull leið fyrir bændastéttina.
    Til þess að draga úr flatri skerðingu haustið 1992, eins og kostur er, var ákveðið í búvörusamningi að ríkissjóður hefði heimild til að kaupa 20% af fullvirðisrétti í hverri sölu á tímabilinu frá 1. sept. 1991 til 31. ágúst 1992. Það hlutfall gæti verið lægra eða ekkert á ákveðnum svæðum sem byggja afkomu sína nær eingöngu á sauðfjárrækt, en sem sagt, heimild til að kaupa 20% af fullvirðisrétti af hverri sölu. Ég hef sterkan grun um að ráðuneytið hafi ekki nýtt sér þessa heimild ýkja mikið og er það miður. 20% kaup ríkisins í þessum viðskiptum hefðu hugsanlega dregið verulega úr því höggi sem yfir vofir á komandi hausti. Einmitt þess vegna var þetta heimildarákvæði sett í búvörusamninginn. En þetta verður að sjálfsögðu best metið þegar hæstv. ráðherra hefur svarað eftirfarandi fyrirspurnum:
  ,,1. Hversu mikinn framleiðslurétt hefur ríkisstjórnin keypt af bændum síðan 1. sept. sl.?
    2. Hversu mikil eru viðskipti milli bænda með fullvirðisrétt orðin síðan þau voru leyfð og hvað veldur því að ríkið hefur ekki nema að litlu leyti nýtt sér rétt sinn til að ganga inn í viðskiptin og kaupa fimmtung réttarins til að draga úr þörf á flatri skerðingu næsta haust?
    3. Hversu mikil verður seinni niðurfærsla fullvirðisréttarins á komandi hausti eins og nú horfir og hefur ríkisstjórnin í huga einhverjar ráðstafanir til að draga úr eða auðvelda niðurfærslu?``