Framkvæmd búvörusamnings

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 10:33:00 (5307)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Við fyrstu spurningunni: ,,Hversu mikinn framleiðslurétt hefur ríkisvaldið keypt af bændum síðan 1. sept. sl.?`` er þetta að segja: Síðasta sumar keypti ríkisvaldið fullvirðisrétt af sauðfjárbændum sem nam alls um 1.730 tonnum eða liðlega 95 þús. ærgildum, nákvæmlega 95.111 ærgildum. Þetta er 14,7% af öllum fullvirðisrétti til sauðfjárframleiðslu sem skráður var 31. ágúst sl. Síðan 1. sept. sl. hafa aðeins þrír bændur selt ríkissjóði fullvirðisrétt, samtals 74,3 ærgildi virk og 28,5 ærgildi af óvirkum fullvirðisrétti.
    Önnur spurning: ,,Hversu mikil eru viðskipti milli bænda með fullvirðisrétt orðin síðan þau voru leyfð og hvað veldur því að ríkið hefur ekki nema að litlu leyti nýtt sér rétt sinn til að ganga inn í viðskiptin og kaupa fimmtung réttarins til að draga úr þörf á flatri skerðingu næsta haust?`` Við þessu er þetta svar: Síðan viðskipti með fullvirðisrétt voru heimiluð hafa 105 aðilar selt rétt en kaupendur eru talsvert fleiri. Salan nemur alls 6.948 ærgildum eða um 126 tonnum. Sumt af þessum selda rétti hefur verið nýtt af kaupendum samkvæmt leigusamningum síðustu 4--5 ár.
    Hvað varðar rétt ríkisins til að ganga inn í viðskiptin og kaupa 20% af hverri sölu er það að segja að ákveðið var að neyta ekki þessa réttar þegar um væri að ræða sölu til hreinna sauðfjárbúa, þ.e. búa með a.m.k. 80% fullvirðisréttar síns í sauðfé. Þessi ákvörðun var tekin að höfðu samráði við bændasamtökin og í fullri sátt. Rökin eru þau að þeir sem búa eingöngu við sauðfé verða fyrir hlutfallslega mun meiri skerðingu en hinir sem búa blönduðu búi eða nær eingöngu við kýr. Þess vegna þótti sanngjarnt að setja reglur sem stuðluðu heldur að því að laus réttur færðist aftur til sauðfjárbænda.
    Spurt er: ,,Hversu mikil verður seinni niðurfærsla fullvirðisréttarins á komandi hausti eins og nú horfir og hefur ríkisstjórnin í huga einhverjar ráðstafanir til að draga úr eða auðvelda niðurfærslu?`` Því er til að svara að fullvirðisréttur til sauðfjárframleiðslu er nú alls um 10 þúsund tonn og þar af eru 515 tonn í leigu hjá Framleiðnisjóði. Niðurfærsla næsta haust veltur annars vegar á því hvort eitthvað verður um frjálsa sölu, en á því virðast litlar líkur, og hins vegar á þróun kindakjötsmarkaðarins næstu mánuði. Eins og staðan blasir við í dag eru horfur á að flöt skerðing næsta haust þurfi að vera 15--17%. Það er alveg ljóst að gangi þetta eftir er mjög alvarlegt ástand fram undan í sauðfjárbúskap. Ég hef þegar átt viðræður við forustumenn Stéttarsambands bænda um þessar horfur og mun eiga með þeim fund í næstu viku til

að fara yfir stöðuna og meta hvaða möguleikar séu helstir til að milda þau áhrif sem samdráttur framleiðslunnar hlýtur óhjákvæmilega að hafa. Ákvörðun um ráðstafanir sem hv. þm. spyr um liggur ekki fyrir á þessari stundu.