Framkvæmd búvörusamnings

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 10:44:00 (5312)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil benda á í þessu sambandi að forsendur sem menn gáfu sér við gerð búvörusamningsins hafa brostið að hluta. Það liggur nú fyrir að nánast allir sem hafa rétt ætla að nýta sér hann til framleiðslu sauðfjár. Það koma allir inn sem voru með lausa samninga vegna riðuniðurskurðar eða leigu til Framleiðnisjóðs. Það er að hluta til afleiðing af slæmu atvinnuástandi. Það er einfaldlega ekki að neinu öðru að hverfa og af hálfu stjórnvalda er ekki ýtt að nokkru leyti undir bjartsýni til átaka á öðru sviði. Þess vegna verður, ef svo fer fram sem horfir, afleiðingin annað tveggja nema hvort tveggja sé: Stóraukið, dulið atvinnuleysi í sveitum eða hitt að flutningur fólks úr sveitum í þéttbýli mun enn aukast. Þess vegna tek ég undir það að hér er aðgerða þörf.