Myndbirtingar af börnum í dagblöðum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:04:00 (5321)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og jafnframt hæstv. ráðherra fyrir svörin og lýsa ánægju minni með viðbrögð þau sem hann boðaði vegna þessa máls. Þetta minnir okkur á að það er langt frá því að vera búið svo að börnum og málefnum þeirra í okkar löggjöf og stjórnkerfi sem vera skyldi. Þessar umræður ættu m.a. að hvetja okkur til að gera þar bragarbót á. Þá á ég m.a. við afgreiðslu frumvarpa sem liggja hér fyrir þessu þingi um málefni barna, annars vegar tillaga um umboðsmann barna og hins vegar barnaverndarlög.
    Enn fremur er það svo að á einu sviði enn tel ég að gera hefði þurft fyrir löngu bragarbót. Það er varðandi veika réttarstöðu barna og varðar m.a. samskipti við fjölmiðla. Þar á ég við að vernda börn fyrir innrætandi auglýsingum. Það er eiginlega til skammar að ekki skuli hafa tekist þrátt fyrir tilraunir um 6--8 ára skeið að koma neinum ákvæðum að gagni inn í íslenska löggjöf á þessu sviði. Allmörg ár eru síðan ég hreyfði því máli fyrst á Alþingi með tillöguflutningi og enn sem komið er því miður hafa ekki komist inn í íslensk lög ákvæði sem tryggja réttarstöðu barna fyrir áhrifum af því tagi sem hér um ræðir.