Stofnun sjávarútvegsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:07:00 (5323)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 671 er fsp. til menntmrh. um stofnun sjávarútvegsskóla. Í skýrslu sem starfshópur eða nefnd á vegum menntmrh. skilaði af sér í mars á þessu ári um sameiningu og samstarf skóla er gert ráð fyrir slíkum skóla. Ein af þeim tillögum, sem nefndin leggur fyrir ráðherra um sameiningu og samstarf skóla, er sú að Stýrimannaskólinn í Reykjavík, Vélskóli Íslands og Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði verði sameinaðir í einn skóla, sjávarútvegsskóla.
    Sagt er í þessu nefndaráliti að það sé í samræmi við tillögu nefndar sem starfaði fyrir nokkrum árum og gerði tillögur um þetta mál en tillögurnar komust þá ekki í framkvæmd. Það sem hér er verið að vitna í er nefndarálit frá því í október 1986 sem kom frá starfshópi er starfaði á vegum þáv. sjútvrh. og þáv. menntmrh. en gert var ráð fyrir í því nefndaráliti að stofnaður yrði sjávarútvegsskóli í Reykjavík sem tæki við hlutverki Stýrimannaskólans, Vélskólans og Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði. Það var gert ráð fyrir því einnig að þessi sjávarútvegskóli yrði sérskóli á framhaldsskólastigi líkt og þeir skólar sem nú eru starfandi í dag en hafa ekkert samstarf eða neina samvinnu eða a.m.k. litla samvinnu sín á milli. Í því áliti var gert ráð fyrir að sjávarútvegsskólinn fengi til umráða húsnæði það sem Stýrimannaskólinn er í og Vélskólinn sem er sama húsnæðið og hið nýja verknámshús sem Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði hefur til umráða og er nú fluttur í. Í álitinu var einnig gert ráð fyrir því að það yrði kannað mjög rækilega í sparnaðarskyni hvort ekki væri eðlilegt að þessi sjávarútvegsskóli starfaði allt árið um kring í þremur önnum, sumar, vetur, vor og haust.
    Því miður þegar þessar niðurstöður lágu fyrir urðu hér stjórnarskipti og við tók nýr menntmrh. sem sýndi málinu ekki þann sama áhuga og fyrrv. menntmrh., Sverrir Hermannsson, gerði. Því er nú svo komið að þetta hefur haldið áfram með óbreyttu sniði, skólarnir þrír starfa hver í sínu lagi og með mjög lítið eða ekkert samband sín á milli. Staðreyndin er sú að í þessum skólum er verið að kenna hálfsetnum bekkjum að mörgu leyti sömu námsgreinarnar með ærnum tilkostnaði, lélegri nýtingu kennsluhúsnæðis, lélegri nýtingu tækja og búnaðar sem í skólanum er. Það hefur verið kannað að mjög auðvelt er að koma öllum þessum þremur skólum fyrir í húsnæði því sem Stýrimannaskólinn og Vélskólinn hafa nú til umráða. Því spyr ég hæstv. menntmrh.: ,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Vélskóli Íslands, Stýrimannaskólinn í Reykjavík og Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði verði sameinaðir í einn sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi?``