Inntaka nýnema í framhaldsskóla og háskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:26:00 (5330)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég svara fsp. með þessum hætti:
    Skrásetning nýrra stúdenta til náms í Háskóla Íslands háskólaárið 1992--1993 fer fram dagana 1.--12. júní nk. Engir hafa því enn sótt um skólavist. Skv. 21. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, hefur hver sá sem staðist hefur fullnaðarpróf frá íslenskum skóla, sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta, rétt

á að vera skrásettur háskólaborgari gegn því að greiða skrásetningargjald. Ég hef ekki í hyggju að svo stöddu að leggja fram frv. til breytinga á lögum um Háskóla Íslands í þá veru að heimila aðgangstakmarkanir að honum. Hins vegar mun væntanlegri þróunarnefnd um Háskóla Íslands verða m.a. falið að fjalla um þetta mál og gera tillögur um breytingar teljist þess þörf. Af framangreindu er ljóst að Háskóli Íslands hlýtur að skrásetja nýnema fyrir háskólaárið 1992--1993 í samræmi við gildandi lög.
    Svar við seinni spurningu fyrirspyrjanda, hvort einhverjar hömlur verði settar á inntöku nemenda í mennta- og fjölbrautaskóla umfram það sem verið hefur, er það að ekki er ráðgert að setja hömlur á inntöku nemenda í mennta- og fjölbrautaskólum umfram það sem verið hefur.