Endurskoðun laga um grunnskóla og framhaldsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:46:00 (5337)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er ekki nema gott eitt um það að segja að skólamál skuli vera til umræðu. Samt hlýtur sú spurning að vakna hvaða nauðsyn beri til þess að setja á laggirnar svo stóra nefnd sem raun ber vitni til þess að endurskoða grunnskólalögin og framhaldsskólalögin þegar þau eru svo nýlega sett. Þetta er svolítið einkennilegt á þeim miklu sparnaðartímum sem við nú lifum. En í hvítbók ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun endurskoða lög um grunnskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.``
    Þegar horft er á erindisbréfið sem nefndin fékk hlýtur sú spurning að vakna hvernig samstarfinu verði háttað. Þegar erindisbréfið er lesið vakna upp margar spurningar um það hver raunverulegur tilgangur þessa nefndastarfs skuli vera, verksvið hennar er gífurlega breytt. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Hvernig á þetta samráð að eiga sér stað?