Endurskoðun laga um grunnskóla og framhaldsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:54:00 (5342)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég svaraði þessum fsp. á þskj. alveg beint en ég get vel bætt við ef það sem ég sagði hefur ekki skilist. Hv. þm. Pétri Bjarnasyni þótti vanta í svar mitt hvers vegna hefði ekki verið óskað tilnefningar. Ég hélt að það hefði komið raunverulega fram í svarinu þar sem ég sagði að enginn fulltrúi sæti í nefndinni bundinn af stefnu eða ákvörðunum hagsmunaaðila og mér þótti það til bóta. Það er mitt mat að ekki sé verið að binda aðila í slíkri nefnd fyrir fram við stefnu sem er mótuð með misjöfnum hætti hjá hinum ýmsu samtökum sem hafa samskipti af skólamálum án þess að ég ætli að fara nánar út í það.
    Út af fyrir sig er freistandi að ræða hvaða nauðsyn bar til að sett skyldi á laggirnar svona stór nefnd eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði. Það kallar á lengri tíma en ég hef hér til umráða en ég held að engum dyljist að ýmislegt þarf að kanna í íslenska skólakerfinu. Ég held að það sé alveg ljóst og við höfum reyndar þegar átt nokkra umræðu í þinginu um það.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir las upp kafla í hvítbókinni þar sem getið var að endurskoðun skyldi fara fram í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Það verður einfaldlega gert þótt ekki hafi verið beðið um tilnefningu á fulltrúa í nefndina þaðan. Ég bendi á í því samhengi að í nefndinni sitja valinkunnir sveitarstjórnarmenn og ég nefni nú bara tvo líka sem hafa lengi verið fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga í ýmsum nefndum sem varða skólamálin, Björn L. Halldórsson, fulltrúi skólaskrifstofu Reykjavíkur, og Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Ég get líka nefnt ýmis nöfn sem eiga að tryggja að skilningur sé á hagsmunum landsbyggðarinnar þótt ekki sé nema einn nefndarmaður búsettur úti á landi, Trausti Þorsteinsson, fræðslustjóri í Norðurl. e. Ég er búinn að nefna Björn Halldórsson og Ingimund Sigurpálsson. Ingimundur var áður bæjarstjóri úti á landi. Ég nefni formann nefndarinnar, Sigríði Önnu Þórðardóttur, sem lengi var í sveitarstjórnarmálum á Vesturlandi og ég gæti nefnt fleiri. Ég gæti nefnt skrifstofustjóra skólamálaskrifstofu ráðuneytisins, Sólrúnu Jensdóttur, sem vegna starfa sinna er gerkunnug þörfum skólanna úti á landsbyggðinni og fleiri gæti ég vafalaust nefnt þannig að ég tel vel séð fyrir hagsmunum landsbyggðarinnar í nefndinni.
    Hv. 4. þm. Suðurl. talaði um að það væri óeðlilegt að endurskoða lög sem svo víðtæk sátt varð um. Ekki er ætlunin að afnema þau ákvæði laganna sem svona víðtæk sátt varð um sem oft og tíðum hefur verið látið liggja að í umræðunni. Í erindisbréfinu til nefndarinnar er tekið beint fram að ekki sé ætlast til þess og þar er t.d. nefnt markmiðið um einsetinn skóla, um skólamáltíðir og annað slíkt. Með þessari endurskoðun er ekki ætlunin að raska við slíku. Það er beinlínis tekið fram.
    Fulltrúar í nefndina voru valdir að höfðu samráði við mikinn fjölda manna. Ekki var farið í félagaskrár ákveðinna stjórnmálaflokka og ef einhver er hér inni sem veit alveg nákvæmlega um stjórnmálaskoðanir hvers manns þá væri það út af fyrir sig fróðleikur fyrir mig vegna þess að ég segi það alveg fullum fetum að mér er ekki kunnugt um stjórnmálaskoðanir allra þeirra sem sitja í nefndinni. En ég þekki mætavel stjórnmálaskoðanir sumra þannig að ég kann því afskaplega illa þegar sagt er í ræðustól á Alþingi að þessir menn hafi verið valdir eftir félagaskrá tiltekins stjórnmálaflokks. Það er það sem er verið að segja og það er beinlínis rangt nema þeir sem svona tala vilji væntanlega setja stimpil Sjálfstfl. á hvern einasta mann sem situr í nefndinni. Ég mundi auðvitað fagna því ef þeir væru allir meðlimir í Sjálfstfl. eða kjósendur hans. En ég hef grun um að svo sé ekki, því miður. En það réði sem sagt ekki vali mínu heldur ráðleggingar hinna mætustu manna á því að fá til starfa í nefndinni hið besta fólk og það tel ég að hafi

tekist. Ég vænti góðs af starfi nefndarinnar. (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, hæstv. forseti.
    Aðeins í lokin vegna áskorunar frá fyrirspyrjanda um að ráðherra gæfi línuna til skólanna um það hvernig ætti að standa að sparnaði vil ég aðeins ítreka það sem ég hef áður sagt að þetta er mjög svo í höndum fræðslustjóranna varðandi grunnskólann. Svo vill til að fræðslustjórar landsins eru á fundi í Reykjavík núna og ég ætla einmitt að hitta þá að loknum þessum fundi og þar verða þær ákvarðanir kynntar sem þarf að taka í ráðuneytinu sjálfu. Ég vona að það liggi fyrir eftir þann fund til hvaða aðgerða verði gripið af hálfu ráðuneytisins og þar á ég við að ákvörðun verði tekin um hver verði skerðing á vikulegum kennslutíma.