Samskipti varnarliðsins og íslenskra starfsmanna þess

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:01:00 (5343)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hefur um fjögurra áratuga skeið verið langstærsti atvinnuveitandi og um leið langstærsti kaupandi að vörum og þjónustu Suðurnesjamanna. Það er í raun risi á vinnumarkaði Suðurnesja og hefur ætíð fengið allan þann mannafla sem það þarfnast í krafti stærðar og stöðugleika umfram fyrirtæki heimamanna sem starfa í áhættusömum og sveiflukenndum rekstri við fiskveiðar og fiskvinnslu og þjónustu við þær greinar. Þar af hefur leitt að önnur atvinnustarfsemi á Suðurnesjum hefur oft átt undir högg að sækja um vinnuafl og það ástand hefur átt drjúgan þátt í að framtak og vöruþróun í öðrum greinum atvinnulífs hefur lengst af átt erfitt uppdráttar. Afleiðingin er að á Suðurnesjum er nú ekki til að dreifa atvinnustarfsemi sem er þess megnug að taka við svo miklum mannafla sem losnar við hraðan samdrátt í umsvifum varnarliðsins.
    Allt frá 1974 og fram á síðustu ár hafa umsvif þess í framkvæmdum, rekstri og þjónustu allri þarfnast nálægt 2.000 íslenskra starfsmanna, þar af um 1.100 hjá varnarliðinu sjálfu og um 600 hjá ýmsum verktökum. Hæst launuðu starfsmenn varnarliðsins og Íslenskra aðalverktaka búa að vísu utan Suðurnesja, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. En nú í meira en tvö ár samfellt hefur varnarliðið ekki ráðið í störf sem losna nema finnist starfsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Skilyrði sem augljóslega bitna á Íslendingum.
    Á sl. hausti hófust uppsagnir og fleiri uppsagnir eru enn að líta dagsins ljós og enn og þráfaldlega heyrast fregnir um væntanlegar uppsagnir. Með samdrætti í framkvæmdum, í viðgerðum og endurbótum bygginga og almennu mannahaldi hefur nú frá hausti 1990 orðið umtalsverð fækkun starfsmanna við umsvif varnarliðsins eða nær 200 manns. Mest hjá varnarliðinu sjálfu en á sama tíma hefur þar aðeins fækkað um nær 40 bandaríska starfsmenn. Á sama tíma og Íslendingar, ekki síst Suðurnesjamenn, glíma við mikinn samdrátt í sjávarútvegi og fiskvinnslu og standa því frammi fyrir hörðustu og lengstu atvinnukreppu síðari tíma sökum ástands fiskstofnanna. Þegar innt hefur verið eftir upplýsingum um fyrirætlanir þessa risa á vinnumarkaði Suðurnesja, sem er fábreyttur, hefur orðið fátt um svör en fluttar gamalkunnar ræður um að varnarstöðin gegni enn sem fyrr mikilvægu hlutverki, jafnvel enn mikilvægara en áður. En risinn er augljóslega að dragast saman og ég inni nú utanrrh. eftir því hversu hratt og hversu langt hann mun ætla að ganga, hverjar munu fyrirætlanir hans, hvort hann ætli að mismuna Íslendingum og bandarískum starfsmönnum sínum. Ég orða fsp. mína til hæstv. utanrrh. á þennan veg:
    ,,Hvað hyggst ráðherrann gera til að bæta samskipti varnarliðsins á Íslandi og íslenskra starfsmanna þess og eyða óvissu þeirra um atvinnuöryggi sem skapast hefur að undanförnu?``