Samskipti varnarliðsins og íslenskra starfsmanna þess

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:10:00 (5345)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svör hans og vænti þess að þau muni leiða til þess að starfsmenn, sem hafa talið sig búa við óvissu og raunar virðingarleysi að nokkru, muni þar eiga bættan hag að þessu leyti. Ég vil taka fram að ég hef átt samtöl við forstöðumann varnarmálaskrifstofu utanrrn. og starfsmenn varnarliðsins, þar á meðal fólk sem ég vann með fyrir fáum árum, og ég tel mig hafa orðið varan við ákveðna hluti sem ég tel verulega alvarlega.
    Það virðist vera að varnarliðið hafi á prjónunum að fela hermönnum viðgerðarstörf sem íslenskir starfsmenn hafa unnið til þessa vitandi að það fer í bága við okkar samkomulag, þ.e. samkomulag ríkjanna tveggja um hefðir og venjur í þessum samskiptum. Það virðist líka ætla að knýja fram styttan opnunartíma flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli sem við höfum notað til samgangna við önnur þjóðfélög. Það virðist nú þegar nota hermenn til að vinna hreinlætisstörf sem íslenskir starfsmenn hafa annast til þessa og það virðist vera að auka ráðningar fjölskylduliðs hermanna til starfa sem íslenskir starfsmenn hafa unnið. Það virðist nú þegar vera að leggja niður vinnustaði þar sem Íslendingar hafa eingöngu unnið og fela verkefnin Bandaríkjamönnum, jafnvel hermönnum. Það virðist þegar hafa metið samskiptin við íslensk stjórnvöld þannig að þar sem viðbrögð þeirra hafa verið takmörkuð á síðustu árum sé vel þess virði að láta reyna á og reyna að komast eins langt og komist verði eða þar til íslensk stjórnvöld bregðist hart við og þá megi semja en alltént muni nást fram breytingar á þessum samskiptum. Ég tel þetta, ef rétt er skilið, alvarlegt og tel nauðsynlegt að ráðherra eigi viðræður við okkar samstarfsþjóð og fái fram upplýsingar svo að starfsmenn hennar hér geti búið við annaðhvort vissu um það sem fram undan kann að vera eða vitneskju um þær breytingar sem líklega verða.