Samskipti varnarliðsins og íslenskra starfsmanna þess

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:13:00 (5347)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hlítir ekki í þessum umræðum að segja: Ég hef upplýsingar um að áform séu uppi um að eitthvað sé að gerast. Ég vil taka það skýrt fram að því er varðar starfsmannahald varnarliðsins, að þá reyndi fyrst og fremst á þessa svokölluðu ráðningarfrystingu. Það er staðreynd að íslenskum stjórnvöldum hefur tekist að fá undanþágur frá þessari ráðningarfrystingu og það er eina dæmið sem þekkt er að því er varðar varnarstöðvar Bandaríkjanna hér á Vesturlöndum.
    Í annan stað hefur Bandaríkjamönnum verið haldið stíft og ákveðið við ákvæði varnarsamningsins. Þeim hefur ekki verið látið líðast að ráða bandaríska hermenn eða bandaríska ríkisborgara í störf sem Íslendingar áður gegndu. Þetta á við um öll þau störf sem eru innan fjárlaga, þ.e. sem kostuð eru af almannafé og heyra undir viðeigandi ákvæði varnarsamningsins. Hitt er rétt að þegar um er að ræða þjónustustarfsemi varnarliðsmanna sjálfra, sem rekin er sem sjálfseignarstofnanir og fyrir þeirra eigið fé, getum við ekki beitt viðurlögum eða ákvæðum varnarsamningsins.
    Ég vil taka skýrt fram að það er ranghermi hvaðan sem það er komið að utanrrh. hafi farið einhverja betliferð til Bandaríkjanna af þessu tilefni. Það hefur hann alls ekki gert. Hitt er auðvitað rétt að við verðum auðvitað sem íslensk stjórnvöld að búa okkur undir það og okkar fólk að þarna verði á næstu árum verulegar breytingar og því verður ekki fram haldið að íslensk stjórnvöld hafi ekki sinnt því.
    Þá minni ég á í fyrsta lagi samningagerðina sem lengi hefur verið í undirbúningi við Atlantsálaðilana um byggingu álvers á Keilisnesi. Það er ekki við íslensk stjórnvöld að sakast að ytri kringumstæður hafa þýtt að þeim áformum hefur verið frestað. En auðvitað var það stór þáttur í undirbúningi þeirra áforma að þar kæmi til starfsemi sem leysti atvinnuleysisvandamál á þessu svæði.
    Annað dæmi má nefna af mörgum dæmum. Það er undirbúningur að stofnun fríiðnaðarsvæðis á Keflavíkurflugvelli og margvíslegur undirbúningur að því að nýta Keflavíkurflugvöll betur. Þar vega mest áformin um fríiðnaðarsvæðið. Að því hefur verið unnið kappsamlega af samstarfshópi þriggja ráðuneyta. Fyrir liggur nú þegar, sem reyndar var rætt um í gær, mjög ítarleg áfangaskýrsla um það mál. Þar er í gangi sérstök könnun sem beinist að því að laða erlenda samstarfsaðila til þess að stofnsetja þar fyrirtæki og skapa störf.
    Enn mætti nefna einn þátt samninganna um Evrópska efnahagssvæðið sem augljóslega mundi auka mjög hlut Keflavíkurflugvallar í fraktflutningi á unnum sjávarafurðum frá Íslandi. Þótt fæst af þessum málum sé nú þegar í höfn, þá hefur verið skipulega að því unnið að mæta þeim vanda sem kynni að skapast við minnkandi umsvif varnarliðs og samdrátt í varnarliðsframkvæmdum einmitt á þessu svæði. Ég vísa því á bug hvort heldur er að þarna hafi verið farinn einhver bónar- eða betlivegur að bandarískum stjórnvöldum. Af hálfu íslenskra stjórnvalda er verið að búa sig undir að þarna verði breytingar en með þeim hætti að leggja á það áherslu að búin verði til arðvænleg störf í staðnn.