Mengun frá bandaríska hernum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:27:00 (5351)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er hreyft stóru máli sem því miður er enginn tími til að ræða efnislega í þessu knappa formi. Ég vil þó segja að svör hæstv. utanrrh. komu ekki á óvart. Þau eru samkvæmt venju tilraun til að breiða yfir þessi mál eins og framast er kostur. Því miður er það jafnan hið ömurlega hlutskipti íslenskra yfirvalda, sem með utanríkismálin og samskipti við þessa aðila fara, að reyna að breiða yfir það sem úrskeiðis hefur farið í samskiptum við þá.
    Auðvitað er enginn vafi á því að hér er stóralvarlegt mál á ferðinni og með ólíkindum ef einhverjir embættismenn í utanrrn. hafa tekið sér það vald í hendur að færa yfir á íslenska ríkið skaðabótaskyldu vegna umhverfisslysa sem e.t.v. gætu mælst fremur í milljörðum kr. ef bæta ætti fyrir þau eða reyna að bæta fyrir þau eins og dæmin sanna erlendis frá. Hreinsun á jarðvegi af því tagi sem gæti þurft að fara fram á Suðurnesjum og jafnvel víðar í landinu er óheyrilega kostnaðarsamt verkefni. Maður hlýtur að spyrja sig að því hvort ekki sé nauðsynlegt að fram fari ítarleg opinber rannsókn á öllum þessum málum og spurningunni um réttarstöðu einstakra embættismanna til að gera slíka samninga bæði varðandi Heiðarfjall og Suðurnes.