Mengun frá bandaríska hernum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:35:00 (5356)


     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Umræður vegna fsp. um mál, sem er í sjálfu sér eðlilegt, hafa orðið sérkennilegri eftir því sem á hefur liðið. Ég skal reyna að upplýsa hvernig málið lítur út frá sjónarhóli venjulegs Suðurnesjamanns.
    Um árabil hefur staðið yfir rannsókn á mengun í vatnsbólum okkar syðra og í ljós hefur komið, eins og hér var sagt frá, að mengunar gætir. Athugunin beindist að nokkrum efnum sem kunna að vera mengandi og í ljós kom að það er olíumengun þar sem vatnsból Njarðvíkinga og Keflvíkinga stóðu. Það er vitað um olíutjón hjá varnarliðinu og hjá venjulegum íslenskum íbúum. Handan götunnar, beint á móti nýlegu pósthúsi Keflvíkinga og Njarðvíkinga, varð fyrir allnokkrum árum skaði. Þar sprakk olíugeymir með tugþúsundum lítra. Hann var íslenskur. Hugsið þið ykkur. En hins vegar liggja fyrir traustar upplýsingar um að vatnsbólasvæði þetta og svæði sem nú er notað séu ekki samtengd. Þessar upplýsingar eru taldar einhverjar nákvæmustu sem vitað er um á íslenskum vatnsbólum og geri aðrir betur. Þau eru talin þekktustu vatnsból á landinu, bæði hvað varðar samgang á milli vatnstökusvæðanna og það hversu ungt vatnið er eða gamalt og hvaða efni hafa farið niður.