Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:37:00 (5357)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 15. nóv. 1989. Hæstv. þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, undirritaði síðan samning þennan fyrir Íslands hönd á ráðstefnu um málefni barna í New York í septemberlok 1990. Alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna er kerfi reglna sem ýmsar þjóðir heimsins samþykkja að setja inn í lög sín.
    Fyrir hinu háa Alþingi liggja nú á þessu þingi ýmis lög er varða réttindi barna. Nægir að nefna lög um vernd barna og ungmenna, frv. til barnalaga og frv. til laga um umboðsmann barna. En öll þessi lagasetning er meira og minna háð og byggð á þessum sáttmála sem hér um ræðir um réttindi barna. Þar er tekið á ýmsum atriðum, svo sem að öll börn eigi meðfæddan rétt til lífs og öllum ríkjum beri að tryggja þeim fullan þroska. Einnig að börn séu ekki skilin frá foreldrum sínum nema að sá aðskilnaður sé ákveðinn á faglegum forsendum og teljist vera til framdráttar barninu. Öllum ríkjum ber að auðvelda sameiningu fjölskyldna með því að leyfa ferðalög einstaklinganna milli landa og í alþjóðasamningum gildir sú höfuðregla að foreldrar annist börn sín og ber öllum ríkjum að aðstoða þá við að fullnægja uppeldisskyldum sínum.
    Ýmis fleiri ákvæði eru í þessum merka samningi svo sem að öllum ríkjum beri skylda til að sjá foreldralausum börnum fyrir hæfilegu uppeldi og öllum fötluðum börnum fyrir rétti til sérstakrar meðferðar, menntunar og umsjár. Síðan eru í þessum samningi ýmis atriði sem varða vinnuþrælkun barna, herskyldu og annað slíkt, afnám misréttis vegna kynferðis og kynþátta o.s.frv. Hér er því um hinn merkasta sáttmála að ræða og sjálfsagt að Íslendingar staðfesti hann fyrir sitt leyti þar sem ég tel að sjálfsagt sé að líta til þessa sáttmála þegar endanlega verður gengið frá þeim lagafrumvörpum sem nú liggja fyrir hinu háa Alþingi. Ég hef því leyft mér, hæstv. forseti, á þskj. 677 að beina þeirri fsp. til hæstv. utanrrh. hvað tefji staðfestingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna sem undirritaður var af Íslands hálfu 26. jan. 1990. Hér held ég raunar að sé um misskilning embættismanna að ræða. Það var sannarlega í septemberlok 1990 sem sáttmálinn var undirritaður af Íslands hálfu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær má búast við að lögð verði fram till. til þál. um staðfestingu samningsins?