Fræðsla fyrir almenning um kynferðismál

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:45:00 (5361)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Árið 1975 voru samþykkt ný lög á Alþingi um fóstureyðingar, kynlíf og barneignir eftir allmiklar umræður og nokkrar deilur í þjóðfélaginu. Hluti þeirra laga, eins og nafnið gefur til kynna, snýst um það að auka beri fræðslu almennt í þjóðfélaginu um kynlíf og barneignir og þá ekki síst til þess að draga sem allra mest úr fóstureyðingum.
    Eftir því sem árin liðu þótti ýmsum sem lögunum væri illa framfylgt og því gerðist það eftir að Kvennalistinn fékk fyrst konur á þing árið 1983 að þær tóku að hreyfa þessu máli og inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig gengi að fræða Íslendinga um þessi mikilvægu málefni. Þar kom að Kvennalistinn flutti þáltill. árið 1987 sem var samþykkt þá um vorið. Tillagan var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela heilbrrh. að efla verulega fræðslu um kynferðismál meðal almennings með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sérstök áhersla skal lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15--19 ára um kynlíf og getnaðarvarnir.``
    Eins og fram kemur í þessari tillögu hafði það gerst í millitíðinni að sjúkdómurinn eyðni fór því miður að gera vart við sig hér á landi og það ýtti ekki síst undir það að tekið yrði af alvöru á þessum málum. Það má greina þessa fræðslu í tvennt. Það er annars vegar sú fræðsla sem fer fram innan skólanna og beinist fyrst og fremst að ungu fólki og síðan er sú hliðin sem snýr að almenningi og á þá ekki síst við um varnir gegn eyðni og öðrum kynsjúkdómum. Ég sé að hæstv. heilbrrh. hefur látið dreifa hér fræðsluefni og ég þakka fyrir það og líklega veitir ekki af.
    Ég vil beina eftirfarandi spurningum til hæstv. heilbrrh.:
  ,,1. Hvernig er staðið að fræðslu og ráðgjöf fyrir almenning um kynlíf og barneignir, samanber lög nr. 25/1975 um þau efni?
    2. Hvað hefur ráðherra gert til að efla fræðslu og ráðgjöf um kynlíf og barneignir, samanber samþykkt Alþingis um þau efni frá 19. mars 1987?``