Fræðsla fyrir almenning um kynferðismál

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:48:00 (5362)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fsp. Það er nokkuð langt síðan fsp. af þessu tagi hefur komið hér fram í sölum Alþingis. Síðast var það á fyrsta kjörtímabili sem ég átti hér sæti á árunum 1974--1978. Þá svaraði hæstv. þáv. heilbrrh., hv. núv. 1. þm. Vestf., sambærilegri fsp. með þeim hætti sem ég tel að sé orðinn nokkuð hefðbundinn, þ.e. með því að upplýsa þingmenn um hvaða fræðsluefni gefið hafi verið út í þessu sambandi og hef ég haldið mig, með leyfi hæstv. forseta, við þann hátt sem hæstv. fyrrv. heilbrrh. markaði í svari sínu þá.
    Fyrsta spurningin er: Hvernig er staðið að fræðslu og ráðgjöf fyrir almenning um kynlíf og barneignir? Síðla árs 1986 var ráðinn sérmenntaður hjúkrunarfræðingur við landlæknisembættið til að taka að sér verkefni tengd fjölskylduáætlun. Þessi verkefni voru mjög viðamikil þar sem bæði þurfti að huga að ýmsum þáttum varðandi kynfræðslu í skólum og fjölkylduáætlunarþjónustu í landinu. Í upphafi var lögð áhersla á að bæta fræðslu um alnæmi fyrir almenning. Í því sambandi var skipulögð fræðsla um alnæmi á öllum stærstu vinnustöðum, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni og enn fremur var safnað gögnum erlendis frá. Þá hefur hlutverk viðkomandi hjúkrunarfræðings m.a. verið að veita ráðgjöf um útgáfu fræðslugagna, þ.e. þeirra bæklinga sem hér liggja fyrir. Ég vil þó vekja athygli hv. alþm. á því að þegar þessi fsp. kom síðast fram fyrir hartnær 20 árum lá eiginlega allt það fræðsluefni fyrir sem hér liggur enn frammi og þar hefur aðeins bæst við einn bæklingur eða svo á öllum þessum tíma og finnst mörgum sjálfsagt ekki mikið. Aðrir bæklingar á vegum embættisins eru bæklingar um kynsjúkdóma, alnæmi og bæklingur fyrir ferðamenn.
    Varðandi fjölskylduáætlun þótti nauðsynlegt að skoða stöðu þeirrar þjónustu erlendis og var skrifað víða eftir upplýsingum. Einnig var leitað upplýsinga um stöðu þessara mála á heilsugæslustöðum hér á landi. Í því sambandi var gerð könnun á fjölskylduáætlunarþjónustu og hvernig heilbrigðisstarfsfólk var undir það búið að veita fræðslu og ráðgjöf. Niðurstöður sýndu að langoftast var veitt fræðsla um getnaðarvarnir, tíðahvörf og kynsjúkdóma en sjaldnar um fóstureyðingu, kynlífsvandamál og kynlífsheilbrigði. Það eru aðallega læknar ásamt hjúkrunarfræðingum sem veita þessa þjónustu og hún er mest veitt í tengslum við almenn heilsugæslustörf.
    Í framhaldi af þessu hefur verið unnin skýrsla fyrir landlæknisembættið sem fjallar um hugmyndafræði fjölskylduáætlunar, fjölskylduáætlun erlendis og alþjóðasamstarf í því sambandi og að lokum settar fram margvíslegar tillögur til úrbóta sem m.a. koma fram í heilbrigðisskýrslu, fylgiriti 1990 nr. II bls. 48--61 og 63--64. Þessi skýrsla var gefin út í apríl 1990 og m.a. send til helstu heilbrigðisstofnana og til Alþingis þannig að þessi skýrsla er tiltæk á bókasafni og má að sjálfsögðu einnig fá hana hjá landlæknisembættinu og í heilbrrn.
    Myndaður hefur verið vinnuhópur til að vinna handbók fyrir starfsfólk heilsugæslustöðva um fræðslu og ráðgjöf varðandi fjölskylduáætlun. Þessi vinnuhópur mun ljúka störfum á þessu ári. Í þeirri handbók eru teknir fyrir eftirfarandi þættir: viðtöl og ráðgjöf, kvenskoðun, getnaðarvarnir, ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar.
    Í upphaflegri skipulagningu í kynfræðslu í skólum var lögð áhersla á samstarf við menntmrn. Árið 1987 var skipuð fjögurra manna samstarfsnefnd heilbr.- og trmrn. og menntmrn. til að vinna að heilbrigðisfræðslu í skólum. Aðalhlutverk nefndarinnar hefur verið að bæta fræðsluefni varðandi kynfræðslu. Við lok ársins 1988 voru gefin út leiðbeiningarrit um kynsjúkdóma fyrir þá sem annast kynfræðslu í skólum, þ.e. um alnæmisvarnir fyrir efstu bekki grunnskóla og framhaldsskóla. Samhliða hafa verið haldnir ýmsir fundir t.d. með fulltrúum Námsgagnastofnunar, skólayfirlækni menntmrn., kennurum og skólahjúkrunarfræðingum, um kynfræðslu og auk þess leitað álits þeirra á kynfræðsluefni sem stuðst er við í bandarískum skólum og stendur til að þýða og staðfæra.
    Á vormissiri 1990 var tilraunaútgáfa þessa námsefnis tilbúin og ber hún heitið ,,Kynfræðsluefni, lífsgildi og ákvarðanir``. Var þá haldinn dagslangur kynningarfundur með skólahjúkrunarfræðingum og kennurum frá sjö skólum landsins sem tóku þátt í tilraunakennslunni. Í lok hennar var gerð könnun á árangri á vegum Háskóla Íslands, þ.e. námsbrautar í hjúkrunarfræði og menntmrn. og er sú könnun tiltæk í báðum þessum ráðuneytum.
    Að lokinni tilraunakennslu var haldinn annar dagslangur vinnufundur með kennurum og skólahjúkrunarfræðingum til að skoða árangur kennslunnar og hvað betur mætti fara. Þorvaldur Örn Árnason námsstjóri hefur gert grein fyrir aðalatriðum þessarar tilraunakennslu.
    Að alls konar fræðslu og upplýsingarstarfi varðandi alnæmi hefur auk þess verið unnið af hálfu landlæknisembættisins.
    Einnig er spurt hvað ráðherra hefði gert til að efla fræðslu og ráðgjöf um kynlíf og barneignir. Eins og fram kemur í svari landlæknisembættisins sem ég hef hér stuðst við hefur fræðsla og ráðgjöf um kynlíf og barneignir verið mikil frá árinu 1986 þegar sérstakur hjúkrunarfræðingur var ráðinn til starfa hjá embættinu til þessa verkefnis.
    Um aðrar sérstakar aðgerðir í framhaldi af samþykkt Alþingis frá 19. mars 1987 hefur ekki verið að ræða.