Fræðsla fyrir almenning um kynferðismál

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:54:00 (5363)


     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessi svör og þá fræðslubæklinga sem hann hefur dreift.
    Ástæða þess að ég spurðist fyrir um þessi mál er auðvitað ekki sú að ég hafi ekki hugmynd um að ýmislegt er verið að gera í þessum málum heldur tel ég að það sé mjög nauðsynlegt að alþingismenn og stjórnvöld fylgist vel með þessum efnum vegna þess að þetta er eitt þeirra sviða þjóðlífsins og mannlífsins þar sem stöðug fræðsla þarf að fara fram vegna þess að auðvitað eru alltaf að koma nýir og nýir hópar til vits og þroska og stjórnvöld þurfa stöðugt að vera vakandi vegna ýmissa sjúkdóma sem stinga upp kolli og breiðast út og það vita auðvitað allir sem hér eru að sjúkdómurinn eyðni er eitt stærsta heilsuvandamál sem við er að stríða í okkar heimi í dag.
    En spurningin sem vaknar eftir þær upplýsingar sem hafa komið fram er auðvitað sú hvort þessi fræðsla og útgáfustarfsemi sem á sér stað skilar þeim árangri sem til er ætlast. Ég vona svo sannarlega að svo sé en það væri auðvitað fróðlegt að fá fram mat á því hvort þetta er nægjanleg fræðsla og hvort hún skilar okkur þeim árangri að þessi mál séu með viðunandi hætti.