Ferðakostnaður lækna

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:59:00 (5366)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fsp. hans og ég er honum alfarið sammála um að tímabært er að endurskoða þessi mál.
    Fyrsta fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda hljóðar svo:
   ,,Hvaða reglur gilda um greiðslur á ferðakostnaði lækna?``
    Þar lít ég svo á að hann eigi við þær reglur sem samið var um sérstaklega við lækna um ferðakostnað vegna samningsbundinna námsleyfa en á almennum ferðum innan lands eru læknar á sömu kjörum eins og allir aðrir opinberir starfsmenn.
    Þessi samningur var gerður í tíð hv. þáv. fjmrh. Ragnars Arnalds til þess að leysa ákveðin launavandamál í kjaradeilu lækna. Þá var samið við þá um tilteknar námsleyfisferðir á kostnað hins opinbera sem er þannig að sérfræðingar á sjúkrahúsum og heilsugæslulæknar hafa samið um að fá greitt hálfs mánaðar námsleyfi árlega og aðstoðarlæknar sem hafa starfað samfellt eitt ár á sömu sjúkradeild eiga rétt á sjö daga námsleyfi, t.d. að fara á ráðstefnu þar sem þeir gera grein fyrir ákveðnu rannsóknarverkefni.
    Gert er ráð fyrir því sem almennri reglu að læknar taki námsleyfi sitt árlega, en þeir hafa heimild til þess ef atvinnurekandi samþykkir að sameina tveggja ára námsleyfi og taka 30 daga annað hvert ár í stað 15 daga á hverju ári. Eldra námsleyfi en tveggja ára leyfi firnist hins vegar.
  ,,2. Hve miklum upphæðum er varið samanlagt til þessa þáttar á hverju ári?``
    Um 485 læknar á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum eiga rétt á námsleyfi árlega. Læknar fá greidda fulla dagpeninga í 15 daga samkvæmt ferðareglum fjmrn. og auk þess námskeiðsgjald að hámarki 400 Bandaríkjadollarar. Meðalfargjald er um 60--70.000 kr. vegna hverrar ferðar en þó getur það verið misvísandi vegna þess að í sumum tilvikum getur verið um allháan ferðakostnað að ræða.
  ,,3. Hver er hámarksgreiðsla til hvers læknis?``
    Gera má ráð fyrir því að meðalgreiðsla til hvers læknis sé um 300.000 kr. en þá eru ekki talin með þau laun sem læknar fá auk þess greidd í námsferðum sínum þannig að það er óhætt að bæta þeim við. Enginn sérstakur hámarkskostnaður er greiddur í þessu sambandi annað en reynt hefur verið að hámarka fargjald og hámarkskostnaðurinn miðast að sjálfsögðu við 15 daga dvöl eða 30 daga dvöl annað hvort ár. Ekki er langt frá því að menn gætu ætlað að þetta gæti verið allt að 600.000 kr. sem einstakir læknar gætu fengið í greiðslur, vegna ferðakostnaðar, dagpeninga og launagreiðslna á meðan á þessum ferðum stendur. Ef menn taka þann kostnað allan þá gæti ég trúað að þetta væru í kringum 300 millj. á ári. Ef menn taka hins vegar aðeins útgreiddan kostnað, þ.e. ferðakostnað og dagpeninga þá eru þetta trúlega í kringum 145.000 kr. á ári. Hér eru því um viðbótargreiðslur til hvers læknis að meðaltali um 300.000 á ári vegna námsleyfisins en auk þess fá þeir laun greidd í þessu námsleyfi eins og frá var sagt.
    Engar aðrar starfsstéttir heilbrigðisgeirans fá hlunnindi af þessu tagi en í samningum nokkurra heilbrigðisstétta eru heimildarákvæði um námsleyfi og þá stjórnun sjúkrastofnana sem taka afstöðu til styrkja til starfsmanna miðað við fjárhagsgetu stofnunarinnar hverju sinni.
    Ég vil aðeins taka það fram í þessu tilviku að það hafði gerst eftir að þessir samningar voru gerðir að fyrrv. ráðherrar höfðu heimilað yfirlæknum á sjúkrastofnunum nokkuð rýmri ferðakjör en þarna var samið um, þannig að yfirlæknar höfðu möguleika á því að taka sér nokkuð lengra námsleyfi en þarna er um að ræða, jafnvel þó svo að það sé ekki samningsbundið. Þeir hafa ekki samningsbundin betri kjör en aðrir læknar.
    Eitt af því sem ég hef gert í heilbrrn. er að skrifa til Læknafélags Íslands og stjórna heilsugæslustofnana og tilkynna að þessi ákvörðun fyrrv. heilbrrh. sé dregin til baka þannig að yfirlæknar á sjúkrastofnunum hafi ekki rétt til þess að fá lengri námsleyfi eða betri kjör vegna námsleyfisferðar en er í gildandi samningum við lækna.
    Til þess að breyta þessu frekar þarf hins vegar að sjálfsögðu að breyta kjarasamningum við lækna sem nú standa yfir.