Líffæraflutningar frá Íslandi til annarra landa

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:36:00 (5379)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Lög um brottnám líffæra voru afgreitt frá Alþingi 6. mars 1991 og reglur um skilmerkingu dauða voru settar af heilbrrh. 1. júlí 1991. Í lok maí 1991 skipuðu læknar á Borgarspítala, Landakotsspítala og Landspítala nefnd um brottnám líffæra og ígræðslu líffæra. Nefndin hafði eftirfarandi hlutverk:
    1. Að kanna við hvaða erlenda aðila ætti að hafa samstarf um málið.
    2. Hvernig skipuleggja mætti líffæratöku.
    3. Hvaða vandkvæði væru á að flytja líffæri úr landi.
    4. Hvaða kostnaður er í þessu sambandi og hver ætti þá að bera hann.
    5. Hvenær hugsanlegt væri að líffæraígræðslur færu fram hér á landi.
    Þessi nefnd læknaráðanna skilaði tillögum sínum 9. jan. sl. Niðurstaða nefndarinnar er í stuttu máli þessi:
    1. Ekki er hægt að gera ráð fyrir líffæraígræðslum hér á landi að svo stöddu.
    2. Gera eigi samkomulag við eina erlenda ígræðslumiðstöð um brottnám ígræðslulíffæra og ígræðslulíffæra í íslenska sjúklinga.
    3. Að svo stöddu verði það Reykjavíkurspítalarnir þrír sem leggðu til líffæri.
    4. Lögð er áhersla á almenningsfræðslu um brottnám líffæra til ígræðslu og fræðslu til starfsfólks

frá þeim sjúkrahúsum þar sem brottnámið fer fram.
    5. Ekki er mælt með útgáfu gjafakorta af hálfu heilbrigðisyfirvalda.
    6. Talið er nauðsynlegt að einum manni verði falið það hlutverk að standa að undirbúningi líffæratöku þegar slíkt kemur til greina.
    7. Talið er nauðsynlegt að brottnám líffæra til ígræðslu sé jafnan borið undir héraðslækni vegna hugsanlegrar réttarkrufningar.
    8. Nefndin kannaði möguleika til samninga við fimm ígræðslusjúkrahús, þ.e. Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, Rikshospitalet í Ósló, Sahlgrenska sjukhuset í Gautaborg, Akademiska sjukhuset í Uppsölum/Huddinge sjukhuset í Stokkhólmi, National Heart & Lung Institute - Royal Brompton og Kings College Hospital í London.
    Nefndin skrifaði öllum þessum sjúkrahúsum og óskaði upplýsinga um fjölda ígræðslna, árangur, biðtíma og kostnað.
    Að fenginni skýrslunni og eftir viðræður við aðila á ríkisspítölum varð það að ráði að tveir læknar á ríkisspítölunum, sérfræðingur í hjartasjúkdómum og sérfræðingur í nýrnasjúkdómum, heimsæktu þær stofnanir sem helst þóttu koma til greina í London og Gautaborg. Læknarnir hafa skilað mér skýrslu nú fyrir nokkrum dögum og varð niðurstaða þeirra sú að vænlegast mundi að reyna að ná samningum við sjúkrahúsið í Gautaborg og fara nú fram könnunarviðræður um slíkan samning.
    Skrifstofustjóri í heilbrrn. fór til viðræðna við sjúkrahúsmenn í Gautaborg um þessa hluti. Verði gerður samningur við aðila á Norðurlöndum hefur verið staðfest, sem er meginatriði málsins, að þeir sjúklingar sem bíði eftir líffærum í London standi á biðlistum sínum þar en verði jafnframt færðir inn á biðlista í Gautaborg að teknu tilliti til þess tíma sem þeir hafa beðið. Sjúkrahúsið í Gautaborg er því reiðubúið að gera samkomulag við Íslendinga um það að í fyrsta lagi njóti íslenskir ígræðslusjúklingar sama réttar og sænskir varðandi bið á þessum sjúkrahúsum og í öðru lagi að þeir sjúklingar íslenskir sem hafa beðið eftir ígræðslu, sumir þeirra bíða úti í London og aðrir bíða heima, fái biðtíma sinn viðurkenndan eins og þeir hefðu allan tímann verið á biðlista hjá hinum sænsku aðilum. Þetta er auðvitað lykilatriði í málinu.
    Við í heilbrrn. erum að skoða uppkast að slíkum samningi. Áður en ég geng frá honum vil ég ræða málið frekar við forsvarsmenn þessara þriggja sjúkrahúsa, formenn læknaráða þar og þá lækna sem með þessi mál hafa unnið og ég reikna með því að hægt verði að ganga frá málinu á fáum vikum.
    Það er rétt sem hv. þm. Finnur Ingólfsson tók fram hér áðan að það kom í ljós við ferð umræddra lækna og viðræður þeirra, t.d. við þá aðila í London sem fengist hafa við ígræðslur líffæra þar, að í tvö ár hafa þar verið þær reglur í gildi að í fyrsta lagi má ekki græða í aðra en Breta líffæri úr Bretum, þannig að ekki er heimilt að græða líffæri sem fengin eru í Bretlandi í aðra en Breta.
    Í öðru lagi þá er forgangsröðun þar þannig að í algjörum forgangshópi eru breskir þegnar, hvort sem um er að ræða líffæri sem fengin eru í Bretlandi eða annars staðar frá. Í öðrum forgangshópi eru þegnar Evrópubandalagsins og í þriðja forgangshópi, virðulegi forseti, eru þegnar annarra ríkja svo sem Íslands. Bresku aðilarnir geta ekki breytt þessu þrátt fyrir beiðni okkar og þeir geta ekki gefið okkur neinar hugmyndir um það eða tryggingu fyrir því hvað íslenskir líffæraþegar þurfi að bíða lengi eftir líffæraígræðslu í Bretlandi. Ég held að þessar niðurstöður, sem komu um sumt mjög á óvart, hafi e.t.v. riðið baggamuninn um að það virðist vera einróma niðurstaða þeirra sem um hafa fjallað að réttast sé og skynsamlegast fyrir okkur að reyna að gera samninga við sjúkrahúsið í Gautaborg um þessi mál, að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem ég hef lýst hér áðan um hvernig þeir bjóðast til að meðhöndla Íslendinga eins og sænska ríkisborgara og með hvaða hætti þeir sjúklingar sem beðið hafa eftir ígræðslu á Íslandi og annars staðar geta öðlast forgang á biðlistum við þetta sjúkrahús.